Óttarr skipti gulu fötunum út fyrir grænan jakka: „Grámyglan getur alveg verið gul“

Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, vakti töluverða athygli í gærkvöldi þegar hann mætti í grænum jakka í leiðtogaumræður í beinni útsendingu á RÚV. Undanfarin misseri hefur hann alltaf verið í gulum jakkafötum.

Óttarr segist í samtali við Nútímann eiga ágætis safn af gulum jakkafötum, fimm til sex mismunandi gul.

Það verður að segjast eftir síðustu daga og vikur kosningabaráttunnar að þau voru öll að verða dálítið fönký. Þá teygir maður sig bara lengra inn í skápinn, það var ekki mikið dýpri hugsun en það.

Hann segir mikilvægt að festa sig ekki í því sama.

„Grámyglan getur alveg verið gul ef hún er það alltaf,“ segir Óttarr.

Nútímanum lék forvitni á að vita hvort hann hafi með þessu verið að sýna vilja til að teygja sig til Vinstri grænna, í stjórnarsamstarf með flokknum.

„Það var ekki meðvituð hugsun en það má kannski alveg túlka þetta sem svo að þetta sé merki um að árétta það að Björt framtíð er á miðjunni og við stöndum fyrir frjálslyndi,“ segir Óttarr.

Um stakan jakka er að ræða og keypti Óttarr hann í Vín í Austurríki.

Auglýsing

læk

Instagram