Óútkominni bók Reynis Trausta lekið

Lögmaðurinn Sigurður G. Guðjónsson segir að sér hafi borist, óvænt og óumbeðið, 200 síður úr óútkominni bók Reynis Traustasonar. Sigurður segir frá þessu á Facebook-síðu sinni. Reynir hefur leitað til Persónuverndar vegna málsins.

„Margt fróðlegt þar og merkilegt hvað blaðamaðurinn á auðvelt með að segja rangt frá og skýra allt sér í hag,“ segir Sigurður.

Afhjúpun er fréttaævisaga Reynis. Í bókinni er farið í gegnum átökin um DV sem enduðu með því að hann var rekinn. Sigurður var áberandi í átökunum um DV en þá sagðist hann vera að gæta hagsmuna þeirra sem hefðu sett fé í fyrirtækið. Hann á nú þrettán prósenta hlut í DV samkvæmt skráningu félagsins hjá Fjölmiðlanefnd.

Sigurður segir á Facebook-síðu sinni að handrit bókarinnar hafi borist sér í pósti:

Í pósthólfi mínu beið mín merkileg lesning. Af efninu að dæma virðist sem um einhvers konar drög að sjálfsævisögu Reynis Traustasonar sé að tefla. Á þeim síðum sem ég fékk og fjalla um meint átök um DV ehf. í haust kemur nafn mitt fyrir í ýmsum myndum liðlega 30 sinnum. Ekki ónýtt að vera svona stórt númer í sjálfsævisögu annars manns, eða þannig.

Á vef RÚV kemur fram að Reynir hafi leitað til Persónuverndar eftir að Sigurður  birti hluta úr bókinni á Facebook. Reynir segir að farið hafi verið inn í einkapóst sem fyrir mistök hafi verið sendur á DV-netfang tveggja fyrrverandi starfsmanna blaðsins.

Sigurður G. Guðjónsson sagðist í samtali við RÚV ekkert þekkja til málsins þegar fréttastofa ræddi við hann og kvaðst enga aðkomu eiga að félaginu.

Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram