Rikki G ætlaði ekki að gera lítið úr verkinu: „Ég biðst afsökunar ef þetta móðgaði fólk“

Útvarpsmaðurinn Rikki G fór inn í kassa Almars Atlasonar í beinni útsendingu á Vísi í morgun. Almar var nýbúinn að yfirgefa kassann en ræddi lítið við fjölmiðla, sem biðu fyrir utan kassann. Mikil reiði er í garð Rikka á samfélagsmiðlum en hann segir að ætlunin hafi ekki verið að gera lítið úr verkinu.

„Áður en ég fór inn hafði hann sagt við mig að ég mætti kíkja inn og fá mér malt og appelsín, síðan voru aðrir búnir að opna kassann og reka hausinn inn,“ segir Rikki í samtali við Nútímann.

Búið var að lýsa því yfir á Vísi að fyrsta viðtalið við Almar myndi birtast þar en bein útsending var á vefnum frá því þegar Almar yfirgaf kassann.

Sjá einnig: Almar yfirgefur kassann, hunsaði viðtalsbeiðni Rikka G sem fór sjálfur í kassann

Rikki segir að ákvörðunin hafi verið spontant og segir að það hafi ekki verið ætlunin að gera lítið úr verkinu. „Ég snerti ekki neitt þarna inni, eingöngu langaði mig að fá smjörþefinn af tilfinningu hans hvernig það sé að vera lokaður inn í kassa,“ segir hann.

Eftir þessa tilfinningu ber ég enn meiri virðingu fyrir honum að þrauka þetta út. Ég biðst afsökunar ef þetta móðgaði fólk. Málið var alls ekki að gera lítið úr verkinu. Heldur bara að lýsa fyrir fólki hvað væri í gangi þarna inni.

Auglýsing

læk

Instagram