Ripley var nefnd í höfuðið á persónu Sigourney Weaver í Alien og hitti hana svo í Reykjavík

Melkorka Huldudóttir og Ragnar Hansson nefndu dóttur sína Ripley árið 2011 og það vakti talsverða athygli þegar mannanafnanefnd samþykkti nafnið. Ripley er nefnd í höfuðið á hörkutólinu Ellen Ripley, persónu Sigourney Weaver í Alien-seríunni.

Fyrsta myndin kom út árið 1979. Ripley hefur lent ofarlega á listum yfir mestu hetjur kvikmyndasögunnar og er hún ein af fyrstu kvenkyns hasarhetjum kvikmyndanna.

Hér verður sagan áhugaverðari:

Sigourney Weaver er stödd á landinu þessa dagana og þegar Ragnar frétti af því eipsjittaði hann að eigin sögn og lýsti eftir henni á Facebook. Hann sá svo leikkonuna á Laugavegi sirka hálftíma síðar — ótrúlegt en satt!

„Ég fraus. Gugnaði næstum … En barði svo í mig kjark og hljóp til hennar: „Ms Weaver? Sorry to bother you. I am a huge fan. I’d like to show you something.” Ég reif upp símann minn og sýndi henni mynd af dótturinni og útskýrði fyrir henni söguna bak við hana. Útskýrði mannanafnanefnd og hversu mikilvægar kvikmyndirnar og sögupersónan væri okkur foreldrum Ripleyjar,“ segir Ragnar í færslu um málið á Facebook.

Svo spurði ég hana hvort það væri einhver séns að Ripley gæti hitt hana áður en hún færi af landi brott. Weaver var ótrúlega almennileg og áhugasöm og þótti það sjálfsagt. Við mæltum okkur mót klukkan 16 í dag.

Ragnar fór svo og sótti Ripley litlu á leikskólann og tilkynnti henni með stolti að þau ætluðu að hitta „Stóru Ripley… úr bíómyndunum“ á morgun. „Hún varð mjög spennt, þrátt fyrir að skilja ekki neitt,“ segir hann.

„Í morgun vaknaði hún enn spennt og spurði hvenær „Stóra Ripley myndi koma?“ og teiknaði meira að segja fína mynd handa henni. Hún var samt ekki eins spennt og við foreldrarnir, sem röltu loks með stúlkuna á fund við hetjuna okkar ásamt Hrappi stóra bróður og Akiru litlu systur.“

Ripley með myndina handa Weaver

Weaver var svo mætt á slaginu 16.

„Og þarna stóð hún, á slaginu 16, Alien stjarnan sjálf og brosti út að eyrum að hitta þessa íslensku nöfnu sína,“ segir Ragnar. „Ripley færði henni myndina og Weaver var himinlifandi með hana.“

Og sagan er ekki búin. Weaver var nefnilega tilbúin með kort til Ripleyjar í litlu umslagi sem á stóð: „From: Ripley … To: Ripley“. Í bréfinu stóð:

Dear Ripley.

I am delighted to meet you, named after a character I loved.
I wish you all the best and I know you will bring your best to whatever you do – as Ripley does! 🙂

Much love,
Your Alien godmother
Sigourney

Magnað!

Auglýsing

læk

Instagram