Segist ekki hafa heyrt kröfu um að Sigmundur Davíð verði ekki ráðherra ef Framsókn verður í ríkisstjórn

Eygló Harðardóttir, starfandi félags-og húsnæðismálaráðherra, segist ekki hafa heyrt það sett fram sem skilyrði fyrir þátttöku Framsóknarflokksins í ríkisstjórn að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, fyrrverandi forsætisráðherra, verði ekki ráðherra.

Þetta kom fram í Vikulokunum á Rás 1 í morgun en þau Eygló, Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar og Theódóra S. Þorsteinsdóttir, þingmaður Bjartrar framtíðar, gestir þar.

Eygló var spurð út í stöðu Sigmundar en hann sagði af sér vegna tengsla við Panama-skjölin í vor auk þess sem kosið var fyrr til Alþingis vegna málsins.

Hún var spurð að því hvort rétt væri að það hafi verið sett fram sem skilyrði að Sigmundur Davíð myndi standa utan ríkisstjórnar ef samið yrði við Framsóknarflokkinn, ef flokkurinn verður í ríkisstjórn.

„Ég hef ekki heyrt það sett fram sem einhvers konar skilyrði. Ég held að það hljóti að vera þannig að fyrst ná menn saman um málefnin og síðan á þeim grunni unnið saman. Það liggur alveg fyrir í lögum Framsóknarflokksins að það er formaður flokksins sem leggur fram tillögu við þingflokkinn um það hverjir verða ráðherra og síðan er það þingflokkurinn sem tekur afstöðu til þess,“ sagði Eygló.

Theódóra sagði ekki hægt að horfa fram hjá því að það er vegna Sigmundar sem kosið var fyrr til Alþingis. „Framsóknarflokkurinn ákveður samt sem áður að stilla honum upp sem oddvita,“ sagði hún.

Auglýsing

læk

Instagram