Sex mjög furðulegar fjárfestingar sem Everton gæti ráðist í fyrir það sem Gylfi kostaði

Fótboltamaðurinn Gylfi Sigurðsson hefur verið seldur til Everton frá Swansea. Bæði lið spila í ensku úrvalsdeildinni og samkvæmt breska ríkisútvarpinu BBC er kaupverðið 45 milljónir punda, eða um 6,3 milljarðar króna.

Gylfi er því auðveldlega orðinn langdýrasti íslenski fótboltamaðurinn og er reyndar á meðal dýrustu fótboltamanna sögunnar.

6,3 milljarðar króna er dágóð upphæð. Gylfi styrkir lið Everton mjög mikið en hann var einn af bestu leikmönnum ensku úrvalsdeildarinnar á síðasta tímabili. En hvað hefði Everton getað keypt fyrir þessa upphæð, hefði stjórn félagsins ekki náð að semja við Swansea og hefði af einhverjum ástæðum ákveðið að eyða peningunum í annað en fótboltamenn? Nútíminn skoðaði málið.

 

1. Everton gæti rekið RÚV í heilt ár og átt 600 milljónir í afgang. Það væri reyndar mjög skrýtið ef fótboltalið á Englandi myndi greiða rekstrarkostnað Ríkisútvarpsins á Íslandi.

2. Everton gæti boðið öllum tæplega 2 milljónum íbúum Lettlands í lúxussalinn í Smáralind. Það er verið að sýna Atomic Blonde með Charlize Theron. Vá, hvað það væri samt furðulegt.

3. Everton gæti keypt þrjá fíla í Costco handa öllum íbúum Seltjarnarness. Af hverju að eiga einn ef maður getur átt tvo? Og til hvers að eiga tvo ef maður getur átt þrjá? Einn inni í stofu, einn úti í garði og einn uppi í bústað. Þetta væri samt mjög undarleg fjárfesting.

4. Everton gæti líka keypt nýjan Volvo XC90 af flottustu gerð handa öllum nemendum Fjölbrautaskóla Vesturlands á Akranesi. Þau væru flott í Hvalfjarðargöngunum á nýju jeppunum sínum en ákvörðunin væri reyndar mjög skrýtin.

5. Keypt risapakka 365, Sjónvarp Símans og Netflix fyrir öll heimili á Íslandi og rústað þannig framlegð heillar þjóðar. Furðuleg ákvörðun hjá fótboltaliði á Englandi en áhugaverð tilraun engu að síður.

6. Keypt Everton búning; treyju, stuttbuxur, sokka og trefil handa öllum Íslendingum. Þannig gæti öll þjóðin staðið með Gylfa og orðið svokallaðir full kit wankers um leið. Fjárfestingin væri reyndar frekar góð fyrir Everton sem myndi vekja heimsathygli.

Það er kannski bara best að Everton keypti Gylfa, sem mun eflaust sýna svona takta í leikjum liðsins

Auglýsing

læk

Instagram