Sigmundur segir anda köldu á milli sín og Sigurðar Inga

Það andar köldu á milli Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar, fyrrverandi formanns Framsóknarflokksins og forsætisráðherra og Sigurðar Inga Jóhannssonar, formanns flokksins og forsætisráðherra.

Þetta sagði Sigmundur í viðtali í þættinum Bítið á Bylgjunni í morgun. Hann sagðist ekki hafa rætt við Sigurð Inga eftir formannskosningarnar um helgina en Sigurður Ingi sagðist í Kastljósi hafa sent honum skilaboð en Sigmundur hefði ekki svarað.

Sjá einnig: Sigmundur Davíð heldur áfram sem oddviti Framsóknarflokksins í Norðausturkjördæmi

Í þættinum vildi Sigmundur ekki fullyrða að svindlað hafi verið í formannskosningnuum líkt og hefur verið haldið fram. Hann sagði þó að það hafi birst fólk í Háskólabíó, þar sem þingið var haldið, sem hann hafi aldrei áður séð. Sigmundur furðaði sig á því að mörgum hafi verið vísað frá og ekki leyft að kjósa.

Hann sagði að það hafi verið vonbrigði að tapa fyrir Sigurði Inga.

Sigmundur hefur hingað til ekki gefið kost á viðtali eftir að hann laut í lægra haldi fyrir Sigurði Inga Jóhannssyni í formannskosningu á sunnudag. Hann gaf í skyn að ekki hafi allt verið með felldu á flokksþingi Framsóknarflokksins um helgina og í aðdraganda þess í yfirlýsingu sem hann birti á Facebook-síðu sinni í gær.

Auglýsing

læk

Instagram