Símar meira vandamál en húfur í kennslustofum

Húfunotkun nemenda hefur í gegnum tíðina verið kennurum þyrnir í augum. Þetta er að breytast ef marka má umfjöllun á vefritinu Blær en þar stíga fram kennarar sem sjá ekkert athugavert við að nemendur séu með húfur í tímum.

Nokkrir kennarar eru spurðir hvað þeir gera ef nemandi kemur inn í tíma með húfu á höfðinu. Hann er beðinn um að taka af sér húfuna sem hann gerir. Tíu mínútum seinna hefur hann sett húfuna upp aftur. Hvað gerir kennarinn?

Edda Hauksdóttir, kennari í unglingadeild í Hagaskóla, segist ekki banna nemendum sínum að hafa húfur.

Það er einhver almesta orkueyðing sem ég þekki, frekar vil ég nota röflið í eitthvað annað! Yfirleitt er einhver ástæða fyrir því að nemendur séu með húfur í tímum; kannski eru þau nýkomin úr klippingu og eru feimin við að sýna nýja klippingu eða fóru vitlausu megin fram úr og hárið er ekki alveg upp á sitt besta. Ég vil frekar nota orkuna mína í eitthvað sem skiptir meira máli í skólastofunni, eins og kennsluna.

Nokkrir kennarar taka í sama streng og Edda. Oddgeir Eysteinsson, íslenskukennari í Menntaskólanum við Sund, segist aldrei hafa gert sér rellu út af höfuðfötum, hvorki í grunnskóla eða framhaldsskóla.

„Sumir virðast öruggari með húfuna eða í úlpu. Ef þeir eru ekki til vandræða að öðru leyti þá sé ég enga ástæðu til þess að kippa mér upp við það,“ segir hann.

„Nú til dags eru margir nemendur sem taka nánast aldrei ofan höfuðfatið og það er náttúrulega rannsóknarefni út af fyrir sig en í 25 manna hóp er í mörg horn að líta. Húfurnar eru bara aukaálag. Símar eru orðnir töluvert meira vandamál nú til dags en húfur og úlpur.“

Smelltu hér til að skoða alla umfjöllunina.

Auglýsing

læk

Instagram