Sjö þingmenn vilja að Alþingi fordæmi tilskipun sem er ekki í gildi

Þingmenn allra stjórnarandstöðuflokkanna nema Framsóknar leggja til að Alþingi fordæmi harðlega tilskipun Donalds Trump um ferðabann íbúa sjö landa til Bandaríkjanna. Tilskipunin er ekki í gildi sem stendur.

Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er fyrsti flutningsmaður þingsályktunartillögunnar sem lögð var fram á Alþingi í dag. Þingmenn Pírata og Vinstri grænna eru einnig meðal flutningsmanna.

Þingályktunin hljómar svo:

Alþingi fordæmir harðlega tilskipun forseta Bandaríkjanna sem beinist gegn múslimum, með því að neita ríkisborgurum sjö ríkja og fólki með uppruna í þeim ríkjum að ferðast til Bandaríkjanna

27. janúar gaf Trump út tilskipun þess efnis að fólki frá sjö löndum væri óheimilt að koma til landsins.Bob Ferguson, ríkissaksóknari Washington, kærði tilskipun Trumps og ákvað dómarinn James Robart 3. febrúar að setja lögbann á hana á meðan kæran verður tekin til skoðunar.

Í kjölfarið fór dómsmálaráðuneyti Bandaríkjanna fram á að ferðabannið myndi öðlast gildi á ný en bandarískur áfrýjunardómstóll hafnaði beiðninni 5. febrúar.

Ríkisborgurum þessara sjö landa er því ekki meinað að koma til Bandaríkjanna á grundvelli tilskipunar Trumps, sem stendur.

Auglýsing

læk

Instagram