Skaftárhlaup komið undan jökli fyrr en búist var við

Skaftárhlaup er komið undan Vatnajökli mun fyrr en búist hafði verið við samkvæmt frétt á vef RÚV. Hlaupvatnið náði mæli við Sveinstind upp úr klukkan eitt í dag en menn höfðu áður búist við að hlaupið brytist undan jöklinum seint í kvöld eða nótt en það vaxi mun hraðar en gert hafði verið ráð fyrir.

Tómas Jóhannesson, jarðeðlisfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við RÚV að hlaupið sé komið fram við fyrsta mælitækið við Sveinstind og vatnshæðin þar hafi vaxið um einn og hálfan metra á rúmum klukkutíma, mun hraðar en árið 2015. Ekki sé þó hægt að segja til um það enn sem komið er hvort rennslið verði jafnmikið eða meira en í síðasta hlaupi.

Of snemmt sé að segja til um hvort hlaupið verði stórt eða hámarksrennsli þess verði mikið að sögn Tómasar. Hann bætir við að verið sé að flýta viðbúnaði varðandi gönguhópa og hópa sem eru nálægt Skaftá vegna þess hversu hratt hlaupið virðist vaxa. Flóðið gæti náð niður í Skaftárdal eftir tvo klukkutíma og jafnvel niður að þjóðvegi eftir fjóra til fimm klukkutíma

Auglýsing

læk

Instagram