Slæmur tónlistarsmekkur barna tekur yfir Spotify-árslista foreldra: „Ég hef mjög sjaldan hlustað á NEINEI“

Árlega gefur tónlistarveitan Spotify notendum sínum möguleika á að útbúa sérstakan lista yfir þau lög og listamenn sem viðkomandi hefur verið duglegastur að hlusta á. Undanfarna daga hefur fólk svo keppst við að grobba sig af þessum listum á samfélagsmiðlum.

Foreldrar sem eru með aðgang á Spotify eru hinsvegar að lenda í því í miklu mæli að börn þeirra skemmi listann og lög sem þau hafa óskað eftir að fá að hlusta á aftur og aftur séu jafnvel ofar á lista en listamenn sem þykja töff. Margir hafa tjáð sig um málið. Nútíminn kannaði málið og ræddi við nokkra foreldra sem eiga börn með tónlistarsmekk sem er frábrugðinn þeirra eigin.

Óskar Eiríksson verkfræðingur er einn þeirra sem þakkaði syni sínum fyrir að koma í veg fyrir að hann gæti deilt listanum þetta árið. „Hljómsveitin Rjóminn er amk vinsæl hjá honum,“ segir Óskar í færslu á Twitter.

Óskar segist í samtali við Nútímann ætla koma í veg fyrir að þetta komi fyrir á næsta ári. „Ég ætla kenna börnunum mínum að nota sinn eigin aðgang. Yngri sonur minn er byrjaður að hlusta á Skoppu og Skrítlu og ef það á ekki að enda á listanum á næsta ári þarf ég að grípa til aðgerða,“ segir hann.

Snærós Sindradóttir fjölmiðlakona tekur í sama streng en hún lenti í því að lög eftir þá félaga Karíus og Baktus enduðu á listanum hjá henni þetta árið.

Þorgils Jónsson er annað fórnarlamb sem deildi sögu sinni. Hann segist í samtali við Nútímann vilja stíga fram og segja sögu sína, öðrum til varnar. „Ef fólk vill ekki líta út eins og kjánar þá þarf það að gera eitthvað í málinu strax. Mér þykir verst þegar lög birtast á listanum mínum sem ég þekki ekki,“ segir Þorgils í samtali við Nútímann.

Lagið NeiNei sem Áttan gerði ódauðlegt á árinu ratar inn á listann hjá Þorgils. Hann þvertekur fyrir að hafa hlustað mikið á lagið. „Ég hef mjög sjaldan hlustað á það lag. Það hefur þá verið í einhverju bríeríi,“ segir hann.

Helgi Hrafn Ólafsson er með skothelt ráð. Ekki eiga börn…

Smelltu hér til að útbúa þinn eigin lista — ef þú þorir!

Auglýsing

læk

Instagram