Sóli Hólm búinn í lyfjameðferð og ekki lengur með krabbamein: „Hvað ætlið þið að gera í því?“

Fjölmiðlamaðurinn og skemmtikrafturinn Sólmundur Hólm greindist með Hodgkins eitilfrumukrabbamein í sumar. Frá þeim tíma hefur hann farið í lyfjameðferð á tveggja vikna fresti, núna síðast 6. nóvember. Hann greindi frá því á Facebook nú í kvöld að lyfjameðferðin hefði heppnast vel og að hann væri ekki lengur með krabbamein.

Í síðustu viku fór Sóli til Kaupmannahafnar í PET-skanna og fékk niðurstöður úr honum síðdegis í gær sem sýna að þeir eitlar sem voru stútfullir af krabbameini hafa ýmist minnkað eða hreinlega horfið. „Það þýðir einfaldlega það að ég er ekki lengur með krabbamein og lyfjameðferðin er formlega búin. Hvað ætlið þið að gera í því?“ skrifar Sóli meðal annars í færslunni.

Sóli segir að nú standi hann fyrir stóru verkefni. „Ég stend uppi sem feitur sköllóttur maður, með ekkert þrek og litla orku. Allt eru þetta þó þættir sem tíminn mun bæta og auðvitað ég sjálfur með tilheyrandi æfingum,“ skrifar Sóli.

Færslu Sóla má sjá hér að neðan

Kæru vinir og vandamenn!Líkt og ég sagði frá um daginn þá greindist ég með Hodgkins eitlakrabbamein í júlí og hef verið að glíma við það síðan. Ég hef farið í lyfjameðferð á tveggja vikna fresti frá 1. ágúst en hef ekki farið núna síðan 6. nóvember. Í síðustu viku fór ég í þriðja sinn til Kaupmannahafnar í PET-skanna og fékk niðurstöður úr honum síðdegis í gær. Þessi skönnun sýndi að þeir eitlar sem voru stútfullir af krabbameini hafa ýmist minnkað eða hreinlega horfið. Það sem er þó öllu mikilvægara er að engin krabbameinsvirkni mældist eða sást neinsstaðar. Það þýðir einfaldlega það að ég er ekki lengur með krabbamein og lyfjameðferðin er formlega búin. Hvað ætlið þið að gera í því? Eitlarnir sem eftir eru halda svo áfram að minnka þó lyfjameðferð sé lokið. Ef ég á að vera alveg hreinskilinn þá er ég eiginlega ekki enn búinn að ná þessu og á kannski bágt með að trúa því að þetta sé bara búið og ég þurfi ekki að mæta á mánudaginn á 11b í lyfjagjöf. Það er hinsvegar staðreynd.Þetta er búið að reyna á en eins klisjukennt það hljómar þá hefur jákvæðnin haldið mér gangandi í gegnum allt ferlið sem og allt það frábæra fólk sem ég hef í mínu lífi. Það er nefnilega rosalega mikilvægt og gott meðal í svona veikindum að umgangast nær eingöngu fólk sem þér finnst skemmtilegt og nærandi félagsskapur. Ég er auðvitað í skýjunum með að vera laus við krabbameinið en ég verð að viðurkenna að það er eitt sem ég kem til með að sakna. Það er hið svokallaða cancer card, það er að nota krabbameinið sem afsökun til að sleppa við að gera hitt og þetta. Ég hef aðallega notað krabbameinskortið innan heimilisins og oft verið „allt of slappur“ til að taka úr þvottavélinni og henda í þurrkarann. Þess vegna mætti segja að krabbameinið hafi lent jafnvel enn meira á Viktoríu en mér að sumu leyti. Þó ég sé ekki lengur með krabbamein er engu að síður stórt verkefni framundan. Ég stend uppi sem feitur sköllóttur maður, með ekkert þrek og litla orku. Allt eru þetta þó þættir sem tíminn mun bæta og auðvitað ég sjálfur með tilheyrandi æfingum.Í meðfylgjandi GIF-i má sjá mynd sem Baldur tók af mér daginn áður en ég byrjaði í lyfjameðferð og svo aðra sem hann tók daginn eftir að ég fékk að vita að ég er ekki með krabbamein.Leiðinleg staðreynd að ég leit töluvert betur út með krabbamein en án þess 🙂

Posted by Sóli Hólm on Miðvikudagur, 29. nóvember 2017

Auglýsing

læk

Instagram