Stefán Karl snýr aftur í leikhúsið og fær hlutverk í Þjóðleikhúsinu: „Ég ætla að byrja rólega“

Leikarinn Stefán Karl Stefánsson ætlar að snúa aftur í leikhúsið og mun koma fram í Þjóðleikhúsinu. Hann ætlar að byrja rólega og jafnvel koma fram í söngleik um jólin. Þetta kom fram í þættinum Ný sýn í Sjónvarpi Símans í kvöld en þar ræddi Hugrún Halldórsdóttir við Stefán Karl.

Stefán Karl greindist með illvígt krabbamein í september í fyrra, aðeins 41 árs. Fyrstu dagana eftir greiningu átti hann erfitt með að horfa á börnin sín án þess að fara að gráta en svo greip hann vonina föstum tökum og horfir björgum augum til framtíðar.

„Mig langaði að koma aftur í leikhúsið því leikhúsið er bara svo gefandi vettvangur. Ég vel auðvitað Þjóðleikhúsið sem er svona minn uppeldisstaður í leikhúsinu,“ sagði Stefán Karl. Hann byrjaði ferilinn í Þjóðleikhúsinu árið 1999 eftir að hafa útskrifast úr Leiklistarskólanum og segir að þar muni hann líklega enda ferilinn líka.

„Ég ætla bara að byrja rólega og síðan er verið að skoða söngleik um jólin sem er nú ekki hægt að opinbera strax hvað er og jafnvel einleik eftir jól eða á leikárinu eftir það,“ sagði Stefán Karl. Hann segir að hlutverkið eða hlutverkin sem bíða hans séu ólík fyrri hlutverkum hans, Trölla og Glanna glæp. „Ég held að sá kafli sé búinn,“ sagði Stefán Karl.

Auglýsing

læk

Instagram