Steindi lét Audda leika með hárkollu

Hreinn Skjöldur, nýi þátturinn hans Steinda jr., verður frumsýndur á Stöð 2 30. nóvember. Tökur hafa staðið yfir undanfarnar vikur og eins og alltaf, þá nær Steindi að sannfæra menn til að taka að sér ótrúlegustu hlutverk.

Auðunn Blöndal leikur Ægi Kjeldsted í þættinum sem er einhvers konar líkamsræktargúrú. Hlutverkið krafðist þess að Auddi setti upp hárkollu.

„Spandexgalli og þykkt hár hljómaði ekkert alltof illa þegar að hann hringdi í mig,“ segir Auddi. „Verst að maður þurfti að skila búningnum eftir tökur. En já, þetta er víst svona líkamsræktargúru sem er með sína eigin línu af drykkjum og eitthvað og því hluti af karakternum.“

Auddi hefur oft talað um draum sinn um að vera með þykkt dökkt hár. Það liggur því beinast við að spyrja hvort hann hafi íhugað að byrja að nota hárkollu eftir að hann kláraði tökur?

Nei, fjandinn. Ég get ekki farið að henda í kollu, maður! Það hlýtur að fara að detta inn pilla eða eitthvað annað. Annars er ég löngu orðinn vanur hinu!

Ágúst Bent leikstýrir nýju þáttunum og skrifar þættina ásamt Steinda og Magnúsi Leifssyni. Sannfæringarkraftur Steinda er landsþekktur en hann fær menn til að taka að sér ótrúlegustu hlutverk. Hann leiðir meira að segja saman tvo Fóstbræður í væntanlegum þáttum.

Er þessi kraftur ekkert að dvína?

„Ég er vanur að fá Steinda í ótrúlegustu hluti þannig að ég er kannski ekki fyrsti maðurinn sem getur neitað honum þegar að hann biður um greiða,“ segir Auddi. „En vissulega er sannfæringarkrafturinn enn á sínum stað hjá gerpinu.“

Fylgdu Nútímanum á Facebook og Twitter og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram