Svona var degi í lífi hænu á hænsnabúi Brúneggja lýst árið 2014: „Þær njóta þess að fara um húsið“

Umfjöllun Kastljóss um blekkingar Brúneggja hefur vakið gríðarlega athygli. Á meðal þess sem kom fram í umfjölluninni var að aðbúnaður hæna á hænsnabúum fyrirtækisins er skelfilegur.

Örskýring: Um hvað snýst eiginlega þetta eggjamál sem allir eru að tala um?

Kólerusmitaðar hænur, músagangur, lirfur á gólfum, drulluskítugir og fiðurlausir fuglar, 90% fleiri fuglar en mátti í vistvænni framleiðslu. Ástandið var skelfilegt.

Merkilegt er að skoða viðtal við Kristinn Gylfa Jónsson, einn eigenda Brúneggja, í Bændablaðinu frá því í september árið 2014 í ljósi þess sem kom fram í gær. Þar lýsti Kristinn miklu lúxuslífi hænanna. „Þegar þær vakna á morgnana fá þær sér að borða og fara svo að huga að varpi,“ sagði hann.

Þær verpa mest fyrri part dags. Síðan eftir hádegi, þegar þær eru farnar úr hreiðri, er blandað geði við aðrar hænur, sinna þörfum sínum og svo fara þær í svokallað rykbað. Þá þyrla þær ryki og undirburðinum yfir sig og hrista sig síðan vel.

Þetta er fjarri sannleikanum samkvæmt umfjöllun Kastljóss en Kristinn sagði þetta vera mikilvægan hluta af lífsháttum hænanna. „Þær eru mikið á ferðinni og njóta þess að fara um húsið,“ sagði hann.

„Þær byrja að verpa svona 18–20 vikna gamlar. Við erum með stofnrækt, sem fyrr segir, og svo ölum við ungana upp á gólfi í varphænustærð. Þá fara þær í varphúsin og verpa í u.þ.b. 12–16 mánuði. Að svo búnu er þeim slátrað og höfum við reynt að nýta allt kjöt sem til fellur.

Við höfum slátrað þeim hjá Ísfugli og selt sem vistvænar unghænur. Það er fugl sem er ekki eldaður eins og venjulegur kjúklingur, hann þarf mun meiri eldun og er til að mynda vinsæll í austurlenska matargerð.“

Akkúrat.

Auglýsing

læk

Instagram