Þórfríður og eiginmaður hennar ná ekki endum saman eftir veikindi hans: „Við eigum bara að þegja“

Þórfríður Kristín Grímsdóttir starfar við umönnun aldraðra en getur ekki unnið fulla vinnu vegna veikinda. Eftir að eiginmaður hennar byrjaði á eftirlaunum eiga þau erfitt með að ná endum saman. Þórfríður segir sögu sína í viðtalsröðinni Fólkið í Eflingu.

Þórfríður segir að eiginmaður hennar hafi hrapað í launum þegar hann varð 67 ára og fór á eftirlaun. Þau hafi hlakkað til elli áranna en þá hafi komið í ljós að upphæðin sem hann fær út er 261 þúsund krónur á mánuði.

„Eftir alla þessa vinnu, alla okkar ævi fáum við ekki einu sinni óskertan lífeyri. Þegar ég borgaði í gær alla reikninga og þessu föstu útgjöld og spítalakostnaðinn, þá eigum við rétt um 200 þúsund og þá á ég eftir að borga hans föstu lyf, bensín og lifa út mánuðinn,“ segir Þórfríður

Eiginmaður Þórfríðar byrjaði ungur á vinnumarkaði en þegar hann var 14 ára réði hann sig í vinnu í fiskbúð hjá Valda Putta í Reykjavík. Þau kynntust þegar hún var 19 ára, giftu sig og fluttu á Skagaströnd þar sem hann fór á sjóinn og hún var heima með börnin, ásamt smá búskap.

„Í þá daga voru lánin þannig að þú gast borgað þau niður sem er heldur ekki hægt í dag, þau bara hækka.Árið 1980 fluttum við í Hjaltadal, og fórum að búa í alvöru, við vorum með allan pakkann, kýr, kindur, hesta og hænur og ég vann á veturna sem ráðskona í barnaskólanum og hann tók túr og túr á sjónum.“

Sjá einnig: Elín Brynja hefur unnið á leikskóla í 25 ár: „Mér finnst það vera óréttlæti að fólk með háskólamenntun fái hærra kaup en ég“

Eftir tíu ár í búskap ákváðu þau að hætta og flytja í borgina þar sem búskapurinn var orðinn erfiður fjárhagslega eftir að kvótinn kom. Þórfríður hefur nú unnið við umönnun á Grund í 24 ár en eiginmaður hennar ók sóparabíl hjá Hreinsitækni síðustu 20 ár sín á vinnumarkaði.

Hún vinnur aðra hvora helgi og tvo daga í viku en getur ekki unnið meira vegna heilsu sinnar getur hún ekki unnið meira en 60 prósent vinnu. Maðurinn hennar hefur staðið í veikindum í heilt ár og Þórfríður neyddist til þess að leggja hann inn á elliheimili í tvær vikur svo hann gæti jafnað sig þar sem honum var hent út af spítala daginn eftir hnéaðgerð.

„Þrátt fyrir að vera bæði mjög glaðlynd að upplagi fórum við langt niður á árinu, aðallega yfir því hvernig þessi kerfi hérna virka. Það er miklu meira en að segja það að lenda í veikindum. Hann veikist og þurfti að hætta að vinna en ekki af eigin ósk, síðan kom endalaus bið eftir því fá einhverja meðferð. Hann var einn heima hérna í íbúðinni allan daginn og gat varla hreyft sig, og á endanum varð ég þunglynd líka eins og það kallast, svörin sem við fengum alltaf voru þau að þetta væri ekki akút aðgerð, hann yrði því að bíða. Ekki skánaði það að standa síðan frammi fyrir öllum kostnaðinum fyrir endalaus viðtöl við skurðlækna, magalækna, og alla aðra lækna, röntgenmyndatökur og ómskoðanir og síðan allan lyfjakostnaðinn,“ segir hún.

 Við erum ekki til í þjóðfélaginu, við eigum bara að þegja, það eru skilaboðin, en við erum bara allt of mörg í þessari stöðu og getum ekki þagað lengur. Með þessi laun líður mann eins og það sé verið að refsa manni fyrir að vinna og hafa verið skattborgari alla tíð, refsa manni fyrir að eldast og veikjast. Við vorum millistéttarfólk en við erum það ekki lengur. Okkur er sagt að skammast okkar, og kennt um þensluna á meðan þau moka ofan í eigin vasa.

Þórfríður segir að hún geti ekki lengur skammast sín fyrir að tjá sig um bága stöðu sína. Hún þekki fullt af fólki sem nær ekki endum saman og er í sömu sporum og hún.

Fleiri sögur frá fólkinu í Eflingu má sjá með því að smella hér.

Auglýsing

læk

Instagram