Tímalína: Skipverjarnir varpa ljósi á atburðarásina um borð í Polar Nanoq frá því að Thomas kom um borð

Skýrslutaka yfir skipverjum Polar Nanoq varpaði ljósi á atburðarásina eftir að Thomas Møller Olsen, sem er grunaður um að hafa myrt Birnu Brjánsdóttur, sneri aftur í skipið á rauða Kia Rio bílaleigubílnum í janúar.

Thomas var búinn að vinna á Polar Nanoq í tvö ár. Thomas þótti bæði vingjarnlegur og samviskusamur í vinnu sinni um borð, að mati skipverjanna.

Thomas snýr aftur um borð – laugardagur 14. janúar

Þegar hann sneri aftur í skipið að morgni laugardagsins 14. janúar svaf Nikolaj Olsen, vinnufélagi hans, í bílnum. Í skýrslutökunni kom fram að Nikolaj hafi verið mjög ölvaður þegar hann kom um borð. Hann mundi lítið frá seinni hluta kvöldsins en sagði að Thomas hafi sagt að stúlkurnar í bílnum hafi verið tvær og að þeir hefði skutlað þeim í Krónuna. Thomas, sem var vanur að vakna senmma, svaf til hádegis á laugardeginum.

Þegar það fór að styttast í brottför síðdegis sá skipstjórinn Thomas á rauða Kia Rio-bílnum á höfninni. Hann var eitthvað að vesenast í bílnum, fór aftur í vinstra megin og svo í skottið. Thomas hélt á blautu handklæði þegar hann kom út úr bílnum. Nokkrir skipverjar sáu hann taka handklæðið út úr bílnum.

Skipstjórinn kallaði í hann og sagði stutt í brottför. Þá keyrði Thomas út á enda bryggjunnar og var þar í fimm til tíu mínútur. Skipstjórinn skipaði honum að skila bílnum því það væri stutt í brottför. Polar Nanoq lagði svo úr höfn um kvöldið og sigldi áleiðis til Grænlands. Skipið var svo komið á Grænlandsmið mánudaginn 16. janúar. Á þessum tímapunkti þótti ekkert áhugavert við hegðun Thomasar.

Polar Nanoq snúið við – þriðjudagur 17. janúar

Þegar lögreglan hafði óskað eftir því að Polar Nanoq yrði snúið við ákváðu skipstjórinn og stýrimaðurinn að segja að segja Thomasi að ástæðan fyrir því væri vélarbilun. Slökkt var á netsambandi í skipinu en símarnir virkuðu.

Flestir eru sammála um Thomas hafi hagað sér eðlilega þangað til Thomas fékk sms blaðamanni sem spurði hvort hann hefði tekið rauðan Kia Rio-bíl á leigu. Hann fékk einnig sms frá kærustunni sinni sem sagði að hann væri mögulega grunaður í málinu.

Ekki er vitað hvaða blaðamaður sendi umrætt sms en Atli Már Gylfason, sem fjallaði um málið á Stundinni, kannast ekki við það

Thomas sýndi fyrsta stýrimanni skilaboðin frá blaðamanninum. Hann hvatti Thomas til að fara og hvíla sig. Thomas fór þá til skipstjórans og sýndi honum skilaboðin. Hann sýndi fleiri skipverjum sms-ið að eigin frumkvæði og sagðist ekkert vita um málið en að það væri verið að saka hann um eitthvað. Hann varð svo fölur, grár og mjög órólegur, svo órólegur að stýrimaðurinn og skipstjórinn ákváðu að gefa honum róandi lyf. Um átta eða níu um kvöldið fór stýrimaðurinn inn til Thomasar og sagði að hann þyrfti ekkert að óttast ef hann hefði ekki gert neitt. „Við skulum sjá hvað kemur út úr þessu,“ sagði Thomas.

Ástand Thomasar versnar – miðvikudagur 18. janúar

Á leiðinni til baka hringdu fjölmiðlar stanslaust í skipstjórann sem svaraði þeim ekki. Hann svaraði hins vegar í símann þegar yfirlögregluþjónn á Íslandi hringdi, spurði hvort það væru vopn um borð og sagði að sex vopnaðir lögreglumenn væru á leiðinni til þeirra með þyrlu. Sérsveitin fór svo um borð í skipið miðvikudaginn 18. janúar.

Ástand Thomasar versnaði þar sem leið á og kokkurinn um borð sagði hann hafa lítið viljað borða. Þegar lögreglan kom um borð sagði hann við kokkinn: „Heldurðu að þeir séu komnir til að sækja mig?“

Polar Nanoq kom aftur í höfn síðdegis miðvikudaginn 18. janúar. Thomas var þá handtekinn ásamt Nikolaj. Þeim síðarnefnda var sleppt eftir yfirheyrslur. Aðalmeðferð málsins hefst 21. ágúst.

Auglýsing

læk

Instagram