Auglýsing

Tom nauðgaði Þórdísi þegar hún var 16 ára, þau segja sögu sína saman í áhrifamiklum fyrirlestri

Þórdís Elva Þorvaldsdóttir var 16 ára unglingur í Reykjavík þegar henni var nauðgað af kærasta sínum, ástralska skiptinemanum Tom Stranger.

Hún kærði aldrei ofbeldið. Mörgum árum síðar rauf hún þögnina og sendi Tom póst þar sem hún lýsti ofbeldinu sem hann hafði beitt hana.
Þórdís bjóst við neikvæðum viðbrögðum en þess í stað fékk hún skilyrðislausa játningu frá honum. Hann vildi gera fortíðina upp með henni.

Þau, brotaþoli og gerandi, stigu saman fram í áhrifamiklum TED-fyrirlestri undir lok síðasta árs. Bók Þórdísar, Handan fyrirgefningar, er væntanleg 16. mars. Sjáðu myndbandið hér fyrir neðan. 

„Það eru forréttindi sem bjóðast ekki mörgum af þeim sem lifðu af eins og ég, þeim sem hafa verið fangelsuð, hýdd, neydd í hjónaband eða jafnvel fangelsuð fyrir að vera nauðgað. Ég hef þau forréttindi að hafa rödd, og það er mín ábyrgð að nota hana,“ skrifar Þórdís í færslu á Facebook-síðu sinni.

Þórdís segist hafa skrifað bókina einmitt vegna þess að henni er það kleift.

„Ég var ekki grýtt, hýdd eða fangelsuð fyrir að hafa verið nauðgað,“ segir hún. „Ég var ekki neydd í hjónaband með gerandanum. Ég var ekki myrt til að endurheimta „heiður fjölskyldunnar“. Á vissan hátt má segja að stærsta áfall lífs míns sé jafnframt til marks um hversu mikilla forréttinda ég nýt, því ég get tjáð mig um það án þess að stofna öryggi mínu í hættu. En forréttindum fylgir ábyrgð og mér finnst ég skyldug til að beita rödd minni þegar svo margir brotaþolar um allan heim geta það ekki. En það er ekki nóg að brotaþolar tjái sig. Gerendur þurfa líka að rjúfa þögnina og axla ábyrgð,“ segir hún.

Tom tekur í sama streng: „Áframhaldandi þögn leiðir ekki til breytinga. Ég hef verið hluti af þessu vandamáli og nú langar mig að leggja mitt af mörkum til lausnarinnar. Tekið skal fram að ég er einn einstaklingur og alls ekki fulltrúi stærri hóps eða karlmanna í heild. Þetta er eingöngu mín saga, saga um hvítan millistéttarmann sem nauðgaði sextán ára kærustunni sinni þegar hann var sjálfur átján ára, og vill nú taka ábyrgð á sársaukanum sem hann hefur valdið í von um að það opni uppbyggilega umræðu.“

Auglýsing

læk

Auglýsing
Auglýsing

Fréttir

Auglýsing