Ungmenni hótuðu svefnvana Hafnfirðingi lífláti í nótt: „Ekki ætlunin að halda þessum hurðarhúni eftir“

Karlmaður sem grunaður er um að hafa valdið tjóni á bíl í Hafnarfjarðarhöfn í morgun segir að ungmenni sem voru í bílnum hafi hótað honum lífláti og líkamsmeiðingum.

Hann var sjálfur búin að hringja í lögreglu þegar klukkan var að verða fimm um morguninn og kvartað undan látum vegna flugeldasprenginga en lögregla sagðist vera hlaðin verkefnum og gæti líklega ekki brugðist við.

Maðurinn ræddi við Nútímann og greindi vandlega frá viðburðum næturinnar.

Líkt og kom fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun eftir nóttina héldu flugeldasprengingar frá höfninni vöku fyrir manni í Hafnarfirði.

Sjá einnig: Pirraður Hafnfirðingur greip til sinna ráða í morgun, gómaði sprengjuglaða menn í Hafnarfjarðarhöfn

Þar segir að maðurinn hafi ákveðið að fara sjálfur á staðinn til að ræða við þá sem voru að skjóta upp flugeldunum. Fólkið neitaði að ræða við manninn og lokaði sig inni í bíl sínum. Reyndi hann þá að opna bílinn sem þá var ekið snögglega á brott og brotnaði við það hurðarhúnn bílsins.

Maðurinn segist í samtali við Nútímann hafa verið að vinna alla helgina. Flugeldasprengingar héldu fyrir honum vöku og um fimmleytið í nótt hafði hann samband við lögreglu og kvartaði. Fékk hann þau svör að óvíst væri að hægt væri að bregðast við.

Maðurinn ákvað því að grípa til sinna ráða og fara sjálfur af staðinn, niður á Hafnarfjarðarhöfn. Þegar hann nálgaðist staðinn þar sem verið var að sprengja hætti fólkið, hvarf upp í bíl sinn og ók á brott. Maðurinn ók í veg fyrir bílinn, steig út og ætlaði að ræða við þau.

Í bílnum sátu fimm ungmenni. Maðurinn gekk upp að bílnum og reyndi að opna hurðina þar sem bílstjórinn sat en án árangurs þar sem hún var harðlæst. Maðurinn hélt enn í hurðarhúninn þegar bílnum var skyndilega ekið af stað og urðu þeir báðir eftir.

„Það var ekki ætlunin að halda eftir þessum hurðarhúni sem losnaði undarlega auðveldlega þegar þau óku af stað,“ segir maðurinn í samtali við Nútímann.

Maðurinn kastaði hurðarhúninum á eftir bílnum en ekki fór betur en svo að hann hafnaði í afturrúðu bílsins og við það var bíllinn stöðvaður. Hann gekk aftur að bílnum og nú hreitti bílstjórinn „skít og skömmum“ í manninn bak við uppskrúfaða rúðu og luktar dyr.

„Hann hótaði mér líkamsmeiðingum, lífláti og eyðileggingu á bílnum mínum. Og líkt og sönnum íslenskum karlmanni sæmir þá ætlaði hann sko ekki að fremja morðið á mér sjálfur. Nei, sitjandi hokinn á bakvið móðuga rúðuna lagði hann áherslu á að hann ætti vini sem tæku að sér slík verkefni fyrir hann,“ segir maðurinn í samtali við Nútímann.

Maðurinn hafði því næst samband við lögreglu, gerði grein fyrir hótununum, atvikinu og því að hann hefði fjarlægt hurðarhúninn af bílnum. Því næst ók hann af stað og fylgdu ungmenninn í humátt á eftir honum og lágu á bílflautunni klukkan fimm að mogni.

Ók hann til móts við lögreglubíl með ungmennin á eftir sér. Teknar voru skýrslur og segist maðurinn þakklátur lögreglu fyrir fagmannleg viðbrögð.

Auglýsing

læk

Instagram