Verslunareigandi bullar um að lögreglan fari ekki fótgangandi í miðborgina af öryggisástæðum

Hildur Bolladóttir kjólameistari sem rekur sína atvinnustarfsemi á Skólavörðustíg 5 ásamt eiginmanni sínum fullyrðir í Fréttablaðinu í dag að öryggisástæður séu fyrir því að lögreglan sjáist ekki fótgangandi á ferli á göngugötum í miðborginni að nóttu til.

„Það er verið að selja eiturlyf og það er veggjakrot og vitleysa vegna þess að lögreglan sést hér ekki,“ segir Hildur í Fréttablaðinu um það sem er kallað skuggahliðar á því að loka götum fyrir bílaumferð.

[Lögreglan] kemst ekki á bílunum inn í þessar lokuðu götur og hún fer ekki fótgangandi að nóttu til af öryggisástæðum. Ástandið verður alltaf verra og verra.

Jóhann Karl Þórisson, stöðvarstjóri lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu, hafnar alfarið fullyrðingum Hildar í samtali við Nútímann. „Þetta er bara bull,“ segir hann. „Við förum þangað sem við viljum og erum ekki hræddir við neinn. Það er á kristaltæru.“

Ein af ástæðunum fyrir því að Hildur gæti ekki tekið eftir lögreglunni er að hún fer stundum óeinkennisklædd um miðborgina á reiðhjólum, að sögn Jóhanns Karls. „Við þurfum ekki alltaf að sjást,“ segir hann.

Auglýsing

læk

Instagram