Vilja flytja þrjá mjaldra til Vestmannaeyja, dvelja nú í dýragarði í Kína

Fyrirtækið Merlin Entertainments vil flytja þrjá mjaldra (e. beluga whale) til Vestmannaeyja frá dýragarði í eigu fyrirtækisins í Sjanghæ í Kína.

Markmiðið er að koma hvölunum í manngerðar kvíar úti í náttúrunni þar sem þeir geti synt til dauðadags án þess að þurfa að leika listir sínar fyrir mannfólkið.

Frá þessu er greint í Fréttablaðinu í dag.

Fyrirtækið sendi Matvælastofnun (MAST) erindi í apríl þar sem var óskað eftir því að fá að flytja hvalina til landsins.

Matvælastofnun telur ekki líklegt að hvalirnir beri með sér sjúkdóma eða annað slíkt en þar sem um langan veg er að fara frá Sjanghæ til Íslands bað stofnunin fyrirtækið að skila inn áhættumati. Það mat er nú á lokastigi, líkt og kemur fram í Fréttablaðinu.

Merlin Entertainments er breskt fyrirtæki sem á og rekur 124 skemmtigarða, 13 hótel og fimm skemmtiþorp í 24 löndum.

Dýraverndunarsamtök hafa lengi barist fyrir því að mjaldrarnir fái frelsi úr Chang Feng-sædýragarðinum og þegar Merlin keypti hann árið 2011 var því lofað að hvalirnir fengju að synda frjálsir um höfin á ný.

Auglýsing

læk

Instagram