Andri Freyr snýr aftur í sjónvarp, reynir að uppræta eigin fordóma gagnvart ferðamönnum

Fjölmiðlamaðurinn Andri Freyr Viðarsson snýr aftur í sjónvarp á næsta ári í þáttunum Andri á flandri í túristalandi. Eins og nafnið gefur til kynna þá hyggst Andri Freyr upplifa hvernig er að vera ferðamaður í eigin landi.

Samkvæmt upplýsingum frá RÚV þá byrjar Andri fullur fordóma gagnavart gullgrafarastemmningunni í ferðamannaiðnaðinum og túristum yfir höfuð en á ferðalagi sínu um borg og bæi, jökla og eldfjöll, fossa og sanda enduruppgötvar hann landið sitt og eignast nýja vini, bæði erlenda og innlenda.

Nútíminn birtir hér fyrir ofan fyrsta brotið úr þættinum. Þetta er á Eiríksstöðum í Haukadal sem er torfbær. Siggi staðarhaldari er með túr um bæinn og fékk Andra lánaðan sem aðstoðarmann í einn dag. Þegar Andri birtist í fullum víkingaklæðum segir Siggi ferðamönnunum að hann sé hinn íslenski Jay Leno.

Kristófer Dignus leikstýrir þáttunum sem eru framleiddir af Pegasus. Sjáðu brot úr þættinum hér fyrir ofan.

Andri Freyr hefur komið víða við í fjölmiðlum en hann stýrði síðast þættinum Virkir morgnar á Rás 2 ásamt Gunnu Dís og Sóla Hólm við góðan orðstír.

Andri gekk nýlega til liðs við framleiðslufyrirtækið Republik. Andri verður yfirmaður innlendrar dagskrárgerðar og þróar hugmyndir og heimildarmyndir sem eru bæði á grunnstigum og nú þegar komnar í framleiðslu.

Auglýsing

læk

Instagram