7 ráðleggingar fyrir foreldra sem vilja að börnin lesi meira

Flestir í kringum mig segjast gjarnan vilja lesa meira – en það sem helst hamli því sé tímaskortur. Ég er alveg þar. Rankandi við mér í kvöldrútínunni með leikskólabarninu þegar ég reyni að semja mig frá því að lesa með því að setja disk í spilarann og skammast mín niður í tær. Ég vinn við bókaútgáfu. Ég elska bækur! Þvílík hræsni – þetta ætti að vera besta stund dagsins, þegar ég hef tækifæri til þess að miðla til hennar einni af mestu ástríðunum mínum. En af hverju missi ég boltann?

Af hverju er svona auðvelt að hætta að lesa?

Sjálf les ég mest rafbækur í spjaldtölvu og hlusta á hljóðbækur í símanum, núorðið er ég sjaldnast með físíska bók í höndunum nema barnabækur … og mér finnst það dálítið glatað. Mig langar að taka mig á. Svo ég fór á stúfana.

Hér eru nokkrar lestrarráðleggingar fyrir fólk sem vill meiri lestur, í sitt líf og barnanna.

#1. Vertu fyrirmynd

Börn gera eins … svo sýndu þeim að lestur skipti þig máli með því að lesa sjálf/ur og hafa bækur í kringum þig. Vertu helst með bók (rafbækur á snjalltækjum eru ekki jafn symbólískar) og segðu þeim frá því sem þú ert að lesa. Ef lestur er sjálfsagður hlutur fyrir þig er líklegra að það verði það einnig fyrir barnið.

#2. Finndu efni við hæfi

Ekki treysta á að réttu bækurnar komi til barnsins þíns gegnum skólakerfið. Hjálpaðu barninu að finna bækur á áhugasviði þeirra með því að spyrja aðra. Finndu manneskju með þekkingu á bókum sem falla að smekk barnsins þíns, vini, einhvern úr fjölskyldunni, starfsmann á bókasafni – einhvern sem þú getur leitað til oftar en einu sinni. Þú vilt að bókastreymið sé stöðugt og lesturinn sé ekki kvöð. Áhuginn á efninu er það sem drífur lesturinn áfram. Ekki námið, þrýstingur frá þér eða yfirvofandi písa-mæling.

#3. Treystu á úrvalið

Það er til svoooo mikið af góðum bókum. Ekki hætta að leita að bókinni sem hentar þínu barni, ekki gefast upp. Það getur verið ein mesta gæfa okkar að „hitta bók“ á réttum tíma, þá gerast galdrarnir. Íhugaðu myndasögur, föndurbækur, fróðleiksbækur, tískublöð … þetta felur allt í sér lestur.

#4. Virkjaðu fjölskylduna

Það er auðveldara ef fleiri taka þátt. Kannaðu hvort systkini, frændfólk, afar og ömmur eða vinir séu til í að leggjast á árarnar líka. Til dæmis með því að gera bækur og lestur að sjálfsögðu umræðuefni. Ástvinir vilja gjarnan eiga virka hlutdeild í lífi barnanna og ein leið til þess að næra tengsl og viðhalda sambandi er í gegnum sameiginlega áhugamál. Svo er heldur ekkert gaman að vera einn í einhverjum lestrarátaks-ham gagnvart barninu sínu, fáðu fleiri í liðið. Og það er gulls í gildi að fá aðra foreldra í bekk eða árgangi með líka.

Hvettu barnið þitt til þess að bítta á bókum við vin eða vinkonu. Barnið velur þá t.d. 5 bækur (úr eigin safni eða af bókasafninu) sem það heldur að vinurinn hafi gaman að og fær á móti sérvaldar bækur frá sínum vini. Það er alls ekkert gefið að allir séu með sama smekk eða sömu skoðun á bókum – en þetta gæti kveikt áhuga og spjall sem annars ætti sér ekki stað.

#5. Lestur fyrir og lestu með

Þó barnið sé orðið læst er engin ástæða til þess að hætta alveg að lesa upphátt fyrir það. Með því að lesa fyrir það sögur sem eru „erfiðari“ en það les sjálft hjálpar þú lesskilningi þeirra gríðarlega og opnar þeim leið að meira krefjandi og spennandi bókum. Þú getur líka lesið sömu bók á sama tíma og barnið, það er mikið sport og getur ýtt undir lestrarhraða og góðar og gagnlegar umræður. Það hvetur þig líka til þess að kynna þér góðar bækur við hæfi barnsins – þær sem þú getur líka lesið og notið án þess að mökkleiðast. Fátt er leiðinlegra en leiðinleg bók.

#6. Finndu hvatningu sem virkar fyrir þitt barn

Þú ert sérfræðingurinn í þínu barni. Finndu það sem virkar best. Sumir fíla keppni – búðu til lestararáskorun. Sumir fíla umbun – búðu til hvatakerfi. Sumir fíla félagsskap – fáðu vini/vinkonur til að lesa sama efni. Það má alltaf finna leið. Ef eitthvað hættir að virka, þá finnum við nýja leið. Við erum foreldrar, það er aldrei pása.

#7. Lestu allt, alls staðar

Hvettu barnið til þess að lesa alls staðar. Við erum umkringd textum, við getum vel verið lesandi allan daginn þó við opnum ekki margar bækur. Svo margt í umhverfinu getur kveikt forvitni og áhuga ef við erum innstillt inn á það.

#8. Hafðu skoðun

Þetta með læsið er stórmál. Það er ekki lengur sjálfsagður hlutur að allir lesi, eða að allir lesi vel eða hratt eða sér til gagns og að þetta gerist allt af sjálfu sér. Lestrarfærni mun hafa áhrif á tækifæri barnanna okkar innan skólakerfanna og í atvinnulífinu svo það er talsvert í húfi. Svo myndaðu þér skoðun og hafðu eitthvað um málið að segja. Það versta sem við getum gert er að láta okkur standa á sama.

Eruð þið með fleiri ráðleggingar? Endilega deilið þeim á FB síðunni okkar.
Ef þú lækar þá missir þú ekki af neinu fróðlegu foreldrastöffi á Nútímanum.

Auglýsing

læk

Instagram