Ef foreldrar skipulegðu fjölskylduhátíðir væri ekkert til sölu og klósett út um allt

Fjölskylduhátíðir eru foreldra-fjandsamlegar. Það er bara svo einfalt. Það er yndislegt að fá svona uppábrot í hversdaginn en tilhlökkunin á það til að snúast upp í algera andhverfu sína – þrælsnúðugt helvíti á jörð – þegar eftirtaldir faktorar koma saman: mannfjöldi, sykur, áreiti, hávaði og ofurverðlagning á mjög freistandi einnota dóti. Rétt upp hönd sem hefur verið þarna – á 17. júní, dönskum dögum, frönskum dögum, færeyskum humardögum, í gleðigöngum eða einhvers staðar óvart með Bylgjulestinni. Verið þarna í hringiðunni að reyna að skemmta sér með fjölskyldunni, ráfandi um hálf stefnulaust, bíðandi í röð eftir einhverju sem virðist spennandi en er það svo innilega ekki þegar á hólminn er komið. Þetta er allt of oft bara bömmer og biðraðir.

Helíumblaðran sem lekur er fullkominn táknmynd íslenskrar fjölskylduhátíðar.

Dýrt spaug, þessar samkomur fyrir bæði fjölskyldurnar og þau sem halda þær. Af hverju ætli þær hafi þróast í akkúrat þessa átt – þær virðast flestar vera að nota sömu formúluna, birgjalistann og line-up-ið?

En sælli er stuðmundur en tuðmundur. Snúum þessu á haus. Hvernig væru fjölskylduhátíðir ef foreldrar skipulegðu þær með sínar þarfir og þekkingu í huga?

Fjörið myndi hefjast miklu fyrr!

Við skulum láta dagskrána hefjast kl. 9.30 að morgni. Krakkarnir eru löngu vaknaðir og til í slaginn. Þau eru mörg mun frískari og geðstilltari á morgnana og þessi minnstu eru ekki farin aftur að sofa. Allir vinna. Hátíðin gæti meira að segja verið búin um hádegi.

Það væru klósett … alls staðar.

Og þá meina ég að það væri bara ekki þverfótað fyrir salernum, snyrtilegum klósettum sem rúmuðu bæði barn og fylgdar-foreldri. Þar væri alltaf nægur pappír og líka fullt af skiptiborðum sem víðast. Og ruslafötur líka út um allt.

Það væri ekkert til sölu

Nú eða flat-rate fyrir alla. Fjölskyldan greiddi vægt aðgangsgjald og ALLIR fengju það sama. Vá, hvað það myndi létta miklum þrýstingi af foreldrunum og skapa himneskt vibe á svæðinu

Það væri frábær og skýr aldursskipting á leiksvæðinu

Börn eru með ólíkar þarfir. Oftast nær er hugað að búnaði og afþreyingu fyrir krakka á aldrinum frá c. 6-12 ára. Á foreldrahátíðinni væru ólík svæði fyrir mismunandi aldurshópa svo allir gætu bara leikið sér í sínu í fjöri og öryggi. Þeir sem vilja hlaupa í hringi gætu hlaupið í hringi. Þau sem vilja hoppa gætu hoppað en væru ekki að hoppa á börnin sem hlaupa í hringi. Og fjölbreytt leiksvæði auðvitað.

Það væri bara gott veður

Þetta segir sig sjálft. Það gengur allt svo miklu betur í góðu veðri.

Það væri líka rólegt svæði

Skilgreint svæði þar sem fólkið sem þarf að anda getur komið og … andað aðeins. Eldra fólk og börn á yfirsnúningi. Einstæðir foreldrar með of mörg börn. Þunnt starfsfólk. Jet-laggaðir ferðamenn. Fólk þarf að geta slakað á.

Skemmtiatriðin væru valin og vottuð af börnum

Hvað vilja börnin í alvörunni sjá og gera saman til hátíðarbrigða? Af hverju hafa þau gaman? Kannski þætti okkur skemmtiatriðin þá alveg glötuð, en ef þetta er fyrir börnin þá ættu börnin að fá að skrína þau. Þau eru merkilega nösk á hvað er í alvörunni skemmtilegt og hvað talar niður til þeirra eða reynist bara últra-leiðinlegt og drepandi stemmninguna.

Það væri reddari til taks fyrir gesti

Týnd snuð, blautir sokkar, rispuð hné, glataðir foreldrar (bókstaflega eða ekki), hausverkur, kaldir puttar … það eru milljón hlutir sem geta hrundið yndislegri samverustund fjölskyldunnar út af sporinu. Ef til taks væri úrræðagóður fagaðili sem tæki að sér að „redda“ málum af þessu tagi gæti fjölskyldan haldið áfram að skemmta sér í staðinn fyrir að eyða tímanum í símanum eða keyrandi á milli staða.

Maður má láta sig dreyma.

 

Við erum líka á Facebook!
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram