Ég fordæmi kynferðisofbeldi

Kæru druslur og aðrir landsmenn.

Á morgun fer Druslugangan fram. Á morgun kem ég fram á Druslugöngunni.

Ég hef eins og aðrir í þjóðfélaginu orðið var við þá umræðu sem hefur átt sér stað undanfarna daga í tengslum við meðferð kynferðisbrota hjá Lögreglunni í Vestmannaeyjum.

Ég virði ákvörðun þeirra sjö hljómsveita sem drógu sig út úr dagskrá Þjóðhátíðar og vil nýta þetta tækifæri til þess að hrósa þeim fyrir að koma af stað nauðsynlegri og vel tímasettri umræðu um þessi mál. Slík mál hafa því miður komið allt of oft upp á undanförnum árum á þeirri annars frábæru hátíð sem Þjóðhátíð er.

Það er jákvætt að fókusinn hafi verið settur á málefni kynferðisbrota um næstu helgi, því þannig eru fleiri vakandi fyrir þeim. Þannig eru fleiri til þess að róa í rétta átt.

Kynferðisbrot á aldrei að þagga niður og mín skoðun er sú að, rétt eins og Druslugangan sem við göngum á morgun stendur fyrir, þá eru kynferðisbrot alltaf sök gerandans en ekki þolandans

En í mínum huga eigum við að einblína á að eyða þessum brotum. Einblína á að koma í veg fyrir að þau eigi sér stað. Orka okkar er því, að mínu mati, best nýtt í að auka forvarnir gegn þessari plágu.

Og þá lít ég í eigin barm og hugsa, hvað get ég gert? Mun fjarvera mín af Þjóðhátíð verða til þess að minnka líkur á að kynferðisglæpir verði framdir á hátíðinni? Og svar mitt við þeirri spurningu er nei.

Ef ég er á svæðinu get ég talað þar gegn kynferðisbrotum.

Ef ég er á svæðinu get ég lagt mitt af mörkum.

Staðan er einfaldlega sú að við þurfum öll að hjálpast að við að eyða þessari plágu, þetta er málefni okkar allra, karla og kvenna. Sameinuð getum við svo miklu meira en sundruð.

Ég hef því ákveðið að leggja mitt af mörkum með því að leggja 200.000 kr. í starf Bleika fílsins í Vestmannaeyjum, sem ég veit að mun nýtast vel og efla enn frekar það góða starf sem þau munu vinna í Herjólfsdal um næstu verslunarmannahelgi.

Ég fordæmi kynferðisofbeldi.

Nauðgun er plága, eyðum henni SAMAN!

Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu Friðriks Dórs.

Auglýsing

læk

Instagram