today-is-a-good-day

Fjölbreytt starf í boði á Nútímanum — mjög fjölbreytt og mjög skemmtilegt

Algengasta spurning sem ég fæ er: „Ertu ennþá einn að skrifa allar fréttirnar á Nútímanum?“. Það er ekkert langt síðan svarið var bara „já“ en ýmislegt hefur breyst frá því að vefurinn fór í loftið í lok ágúst 2014.

Nútíminn hefur í samstarfi við framleiðslufyrirtækið Skot boðið upp á fjölbreytt myndbönd ásamt sérstöku efni fyrir foreldra sem hún Kristrún Heiða heldur utan um. Ég hef hins vegar séð einn um fréttirnar. Og nú er það loksins að fara að breytast.

Uppgangur Nútímans hefur verið lygilegur. Vikulegir notendur eru í dag 65 til 120 þúsund eftir að hafa verið í kringum 50 þúsund á viku fyrstu mánuðina og myndböndin okkar eru spiluð allt að 100 þúsund sinnum í hverri einustu viku. Þrátt fyrir þetta höfum við stigið varlega til jarðar, forðast að skuldsetja miðilinn og nýtt svigrúm sem skapast til uppbyggingar.

Það er því með miklu stolti sem ég tilkynni að nú hefur loksins skapast svigrúm til að ráða blaðamann. Við erum að leita að manneskju sem er hæfileikarík á mörgum sviðum. Starfið felur meðal annars í sér að:

  • Fá mikið af allskonar hugmyndum, góðum og slæmum.
  • Skrifa allskonar fréttir og annað frumlegt og skemmtilegt efni, topplista, örskýringar, pistla o.fl.
  • Taka þátt í hugmyndavinnu og framleiðslu á myndböndum Nútímans.
  • Ræða málefni líðandi stundar fyrir hönd Nútímans á öldum ljósvakans.
  • Lesa fréttir (nánar um það síðar).

Viðkomandi þarf að vera eldri en 20 ára, kunna á tölvur, internetið og helstu samfélagsmiðla. En ekki senda mér ferilskrá. Strax. Algengt er að fjölmiðlar láti umsækjendur þreyta sérstakt próf og Nútíminn er engin undantekning.

Ég vil að þú skrifir fyrir mig efni í anda Nútímans. Með þessu vil ég sjá hvernig texta þú skrifar en efnið mun einnig gefa til kynna hversu frjó manneskja þú ert og ekki síst hversu vel þú þekkir vefinn og það sem hann stendur fyrir — eitthvað sem mun hjálpa okkur mikið í ráðningarferlinu.

Skrifaðu færsluna í sérskjal, hafðu fyrirsögn og undirfyrirsögn með og sendu mér á atlifannar@nutiminn.is.

Færslurnar á Nútímanum eru ekki langar, ekki hafa áhyggjur af því. Efnið má í raun vera hvernig sem er: Frétt, topplisti, örskýring — hvað sem er. Öllum verður svarað en þau sem senda besta efnið verða beðin um nánari upplýsingar, ferilskrá. Allt þetta dót.

Nútímanum hefur frá stofnun borist mjög mikið af starfsumsóknum. Ég vil endilega heyra aftur frá þeim sem hafa þegar sótt en vil biðja þau um að senda mér tillögu að efni samkvæmt forskriftinni hér fyrir ofan.

Þetta er pínu óvenjulegt ferli en Nútíminn er óvenjulegur vefur. Umsóknarfrestur er til 8. júní.

Auglýsing

læk

Instagram