Hér eru viðmælendur RÚV sem Karl Garðarsson gleymdi í grein sinni um Óvin númer eitt

Karl Garðarsson, þingmaður Framsóknarflokksins og fyrrverandi yfirmaður minn á Blaðinu (blaðið sem hét Blaðið) skrifar grein um Ríkisútvarpið undir fyrirsögninni „Óvinur númer eitt“ á bloggsíðu sína.

Sjá einnig: Fjórir hlutir sem komu í ljós eftir að eiginkona forsætisráðherra sagði frá Wintris Inc.

Karl telur upp fólk sem RÚV hefur fengið til að tjá sig um aflandsfélag Önnu Stellu Pálsdóttur, eiginkonu forsætisráðherra, sem hún upplýsti um á dögunum. Hann segir að RÚV hafi staðið fyrir herferð gegn forsætisráðherra undanfarna viku og að öll lögmál hlutlægni hafi látið undan.

Þetta eru risastór orð.

Karl telur upp ýmsa menn sem hann telur sérstaka óvini Framsóknarflokksins. Hann gleymir hins vegar alveg að nefna nokkra sem tjáð hafa sig um málið í fréttum og dagskrá RÚV.

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra var í viðtali í Morgunútvarpinu á fimmtudag, Frosti Sigurjónsson, þingmaður Framsóknarflokksins, var í Vikulokunum á laugardag ásamt því að vitnað var til hans og Vilhjálms Bjarnasonar, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í hádegisfréttunum. Þá var einnig spilað svar Sigmundar Davíðs við beiðni um viðtal.

Karl var svo sjálfur í hádegisfréttum RÚV á sunnudag.

Herferðin var því ekki svakalegri en svo að fjórir þingmenn Framsóknarflokksins fengu tækifæri til að tjá sig um málið á nokkrum dögum. Einn þeirra hefur að vísu hafnað öllum beiðnum fjölmiðla um slíkt.

Hann heitir Sigmundur Davíð og er forsætisráðherra.

Auglýsing

læk

Instagram