Mig langar ekkert að vera ábyrga foreldrið, afsakið meðan ég tek af mér skikkjuna

Ef það væri samfélagslega ásættanlegt að taka sér frí frá foreldraskyldum sínum, henda börnunum í fangið á hinu foreldrinu og hreinlega beila í 10 daga eða svo þá myndi ég gera það.

Hvað það er lýjandi að vera ábyrga foreldrið! Jesús. Þið sem dróuð þá stuttu spýtu, viljandi eða ekki. Þið eigið alla mína samúð.

Nú alhæfi ég og nota hugtakið „ábyrga foreldrið“ því í hverju setti af foreldrum virðist annar aðilinn iðulega taka á sig mest allt stúss, skipulag og ábyrgð á dagskrá barnanna, búnaði, heilsufari, samgöngum, afmælum, mataræði, hreinlæti … þið þekkið þetta kannski. Annar aðilinn verður verkstjórinn og gengur í þessi verkefni af tilneyddri þörf eða skyldu – og stundum vantrausti yfir því að nokkur annar geti sinnt þeim bærilega. Sá hinn sami reynist yfirleitt verkstjóri heimilishaldsins líka. Þetta getur ekki flokkast sem mjög heilbrigt ástand, né sanngjarnt.

Það sem gerist er sígildur vandi. Það er fljótlegra að leysa málið sjálfur heldur en að reyna að setja einhvern annan inn í það. Ef maður gerir það sjálfur er maður alla vega viss um að það sé gert, og gert „rétt“. Úr þessu getur þróast hreint ömurlegur vítahringur þar sem smáverkefnin hrúgast á annað foreldrið en ekki hitt. Óháð því hvernig stendur á. Það bara gerist og hversu sjúklegt sem ástandið getur orðið þá virðist ómögulegt að vinda ofan af því. Flesta daga er allt OK en svo bankar biturðin upp á, gremjan hríslast upp mænuna. Það kemur svona fórnarlambstónn í röddina. Þegar samtöl við annað fullorðið fólk fara að hefjast á orðunum „fyrirgefiði …“, „afsakið að … “ eða „ég ætlaði …“ er tímabært að endurskoða verkskiptinguna – reddararnir þurfa stundum að taka af sér skikkjuna.

Núna eru fjölskyldur að gíra sig upp í rútínuna sína aftur. Það er geysilegur léttir fyrir marga, því sumir verkstjórar á heimilum landsins hafa einnig tekið á sig þá ábyrgð að vera skemmtanastjórar. Nú eða skipulagsstjórar barnagæslu. Og þeir fagna því að losna við þá ábyrgð af herðum sér núna þegar skólarnir fara aftur í gang. (Þar til minnsta frávik frá hefðbundinni dagskrá dúkkar upp – þá eru þeir skiljanlega ON aftur – halló starfsdagur/ferðalag/íþróttamót/).

Svo það er kannski að mörgu að huga. Verkstjórarnir horfa yfir sviðið og hugsa upp strategíuna um hvernig þeir eigi að jöggla öllu á sem þægilegastan hátt. Mitt ráð? Hendið boltunum upp í loft, og látið þá bolta bara detta og skoppa burt sem enginn annar grípur.

Það þýðir að þú leyfir bara barninu til dæmis að mæta í afmæli án þess að vera með gjöf, í götóttum sokkum, hálftíma of seint. Þú útskýrir ekki neitt, afsakar ekki neitt og ef þú færð svona „augnaráð“ (sem oftast er hrein ímyndun) frá öðru foreldri þá brosir þú bara út að eyrum. Það mun enginn dæma þig jafn hart og miskunnarlaust og þú sjálf/ur. Fáðu þér bara köku.

Við skulum ekki ræna börnin eða makana þeim forréttindum að taka ábyrgð á eigin smámálum. Og því að fá jafnvel að redda hlutum fyrir þig þegar mikið liggur við. Þú vilt ábyggilega að fólkið þitt geti græjað allt og bjargað heiminum alveg eins og þú, er það ekki?

Skikkjan mín er á gólfinu – og nei, ég ætla ekki að taka hana upp.

Við erum líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram