Til varnar jólasveinum og hlutverki þeirra í nútímasamfélagi manna

Nú er runninn upp bráðskemmtilegur (lesist flókinn og stundum lýjandi) tími í lífi margra fjölskyldna sem innibera börn undir 10 ára. Foreldrar halda skóbókhald fyrir börn sín sem vanda sig hvað mest þau mega í að vera þæg og góð og meðfærileg til að fá ekki kartöflu eða eitthvað þaðan af verra í skóinn. Sjálf pæla börnin endalaust í þessu, setja fram hressandi kenningar og flóknar söguskýringar um hver gerir hvað og hvernig. Og gruna grunaða þegar þau komast til vits og ára.
Í stóra samhenginu um hver trúir hverju, hvenær og hversu lengi er vert að skoða hvaða hlutverk meintir sveinar hafa árið 2016. Og þá er ég ekki bara að tala um jólasveina sem  „kúgunartól“ foreldra til þess að fá börnin sín til að haga sér betur. Því þegar grannt er skoðað færir hugmyndin um jólasveina okkur fleira …

1. Þeir eru tímavél

Jólasveinar tengja okkur við fortíðina og hefðirnar sem mörgum finnast mikilvægastar við jólahátíðina. Þó við höfum aðlagað og ruglað aðeins í hefðunum, þá er það í sögunum sem galdurinn gerist. Og í trúnni, hvort heldur á jólasveina, Jesúbarnið, kærleikann eða Mammon

2. Þeir eru sprellarar

Íslensku jólasveinarnir eru uppátækjasamir prakkarar. Þeir „mega“ allt því þeir eru jú jólasveinar. Þeir sveigja öll lögmál – meira að segja lögmál eðlisfræðinnar og þyngdaraflsins. Koma þeirra er  því frábært tækifæri til þess að sprella, hvort sem það er fyrir eða með börnum eða án þeirra.

3. Þeir hvetja til gjafmildi

Enn er sælla að gefa en þiggja. Gjafmildi jólasveina er sannarlega til fyrirmyndar, þó hún sé stundum skilyrt við einhverja æskilega hegðun. Góðverk og glaðningar í þeirra nafni geta líka létt andrúmsloftið hjá streittu, trúlitlu fullorðnu fólki á aðventunni.

4. Hvað er þvara?

Með nöfnum jólasveina læra börn mikilvæg hugtök og heiti á búsáhöldum fyrr og nú. Það er nú einhvers virði.

5. Þeir eru ekki með neina fordóma

Jólasveinar fara ekki í manngreinarálit. Þeir eru hvorki hrokafullir né fordómafullir eða fullir af einu né neinu nema fjöri og gleði. Það viðhorf getum við sannarlega tekið okkur til fyrirmyndar.

6. Þeir sameina okkur

Hugmyndin um jólasveina nærir ímyndunaraflið hjá okkur öllum og það er æðislegt tól. Það má spinna um þá sögur og svara fyrir þá á meðan fjölskyldan hefur af því yndi og ánægju, og hætta því svo bara ef stemmningin fyrir þeim minnkar. Sjálf eigum við líklegast okkar eigin jólasveinaminningar, tengdar trú eða tortryggni en ég þekki engan sem er verulega skemmd/ur af sinni jólasveinaupplifun. Svo ættum við ekki öll að reyna að njóta þessarar jólasveinadaga?

Nútímaforeldrar eru líka á Facebook.
Lækaðu ef þér líkar síðan okkar og þá missir þú ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram