Að semja tónlist stundum eins og að „öskra í koddann“—Pusswhip og Drexler gefa út nýja plötu (viðtal)

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Árið 1979 kom kvikmyndin „The Brood“ eftir kanadíska leikstjórann David Cronenberg út. Í myndinni ástundar sérvitur sálfræðingur að nafni Hal Raglan fremur nýstárlega aðferð, sumsé Psychoplasmics, þar sem sjúklingar eru hvattir til þess að gefa bældum tilfinningum lausan tauminn—og leyfa andlegum kvillum að holdgast. Það er einhver mjög áhugaverð og sannfærandi tenging á milli hugtaksins Psychoplasmics og listsköpunar. Nýverið komst sálfræðingurinn Dean Simonton t.d. að þeirri niðurstöðu að 87% bandarískra ljóðskálda þjást af einhvers konar andlegum sjúkdómum á meðan aðeins 46% almennra bandarískra þegna upplifa andleg veikindi einhvern tímann á ævinni. Þetta bendir kannski til þess að list sé í raun einskonar Psychoplasmics, þar sem óræðar og oft og tíðum erfiðar tilfinningar listafólks fær útrás og úr verður einhvers konar listaverk? Nýverið lagði SKE þessa spurningu fyrir tónlistarmennina Lord Pusswhip og Alfred Drexler, sem saman skipa tvíeykið Psychoplasmicsog gáfu nýverið út samnefnda plötu (rappararnir Ty og Birnir koma meðal annars við sögu á plötunni). Gjörið svo vel. 

Viðtal: RTH
Viðmælendur: Þórður Ingi Jónsson / Alfreð Jóhann Eiríksson
Ljósmynd: Magnus Andersen

SKE: Sælir félagar, hvað segið þið þá?

Auglýsing

Pusswhip og Drexler: Við erum helvíti góðir. Smá spennufall eftir að hafa stússað hart seinustu tvo mánuði fyrir þessa plötuútgáfu.

SKE: Titill hljómsveitarinnar, sem og plötunnar, Psychoplasmics, vísar í kvikmyndina
The Brood eftir David
Cronenberg.
Er myndin í miklu uppáhaldi?

Pusswhip og Drexler: Júm, titillinn vísar í þá merku mynd. Við erum miklir aðdáendur Cronenberg þó The Brood sé ekki endilega hans besta. Okkur þótti orðið „Psychoplasmics“ úr myndinni bara vera svo drullugott nafn fyrir hljómsveit.

SKE: Í myndinni vísar Psychoplasmics í umdeilda sálfræðistefnu þar sem andlegir kvillar geta af sér líkamleg einkenni. Þá liggur beinast við að spyrja hvort að platan sé sömuleiðis afsprengi andlegra kvilla höfunda?

Pusswhip og Drexler: Hahaha, já það gæti verið eitthvað til í því. Þegar við erum að skapa tónlist reynum við að tengjast okkar dýrslega og barnslega eðli. Að gera tónlist er stundum eins og að fá að öskra í koddann. Annars fara pælingar Cronenbergs um samband tækni og líkamshryllings vel saman við okkur analog-inspíreraða hljóð- og hugmyndaheim.

SKE: Er það ykkar upplifun að listafólk þjáist frekar af andlegum veikindum en annað fólk?

Pusswhip: Það gæti vel verið. Ég held samt að mýtan um þjáða listamanninn sem skapi í gegnum sársaukann sé röng; ég held að því sé reyndar öfugt farið og að andlegir kvillar geri það erfiðara fyrir að skapa. Þá gæti líka verið að umhverfi lista- og tónlistarheimsins auki kvíða hjá listamönnum og svo framvegis. Við höfum kannski ekki skapað mjög gott umhverfi fyrir lista- og menningaiðkun ungs fólks á Íslandi.

SKE: Er Psychoplasmics kannski fullkomin myndlíking fyrir list?

Pusswhip: Kannski þegar rapp beef fara að orsaka æxli utan á líkömum okkar. Lengi lifi hið nýja hold!

SKE: Uppáhalds lagið ykkar á plötunni og hvers vegna?

Pusswhip: Ég myndi segja 107 RVK af því að við sáum lagið fyrir okkur í stúdíóinu og gerðum það síðan. Útkoman var alveg eins og ég ímyndaði mér það.

Drexler: Berlin Nights eða Dolphin’s Delight. Dolphin af því að það eru svo skemmtilegur hljóðfæraflutningur á gítar og bassa frá Indriða og Nnamdi, gaman að innleiða meiri hljóðfæri í þetta. Berlin Nights því að það fær fólk til að dansa!

SKE: Ty, Birnir, Jon Riverjoy, Indridi og Nnamdi Umez koma við sögu á plötunni. Hvaða listamann/konu kom alls ekki til greina að heyra í, varðandi samstarf?

Pusswhip og Drexler: Allir sem eru ekki með sveigð komu ekki til greina.

SKE: Pusswhip, þú hefur verið viðloðandi íslenskt rapp býsna lengi. Hvað hefurðu lært á þeim tíma?

Pusswhip: Ég veit minna eftir því sem tíminn líður. 

SKE: Hljóðheimur plötunnar er ansi áhugaverður. Hvaða tæki og tól notist þið Drexler helst við í sköpun ykkar?

Pusswhip og Drexler: Platan er 50/50 blanda af okkar eigin hljóðfærum og röddum saman við hljóðbrengluð sömpl og stafræna vinnslu.

SKE: Eruð þið að lesa eitthvað sniðugt um þessar mundir?

Pusswhip: Ég er að klára mjög áhugaverða bók um siðafárið í kringum satanisma seint á tuttugustu öldinni sem heitir Satanic Panic: Cultural Paranoia in the 1980s.

Drexler: Ég er að lesa Just Kids eftir Patti Smith. Það gengur eitthvað hægt hjá mér samt, ég er svo háður Netflix.

(SKE þakkar Pusswhip og Alfred Drexler kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að hlýða á plötuna Psychoplasmics.)

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram