„Ensku vinirnir svöruðu ekki eftir leikinn gegn Íslendingum.“ – Katrín

Viðtal

SKE: Aldrei fyrr í sögu mannkynsins hefur verið jafn mikið framboð af nýrri tónlist. Víðsvegar um heiminn situr metnaðarfullt fólk í litlum heimatilbúnum hljóðverum og brýtur heilann á tungumáli hljómlistar, sumsé, það hugsar í nótum og tónum eða leyfir hugsununum að flæða án þess að hugurinn skerist í leikinn. Í síðustu viku ræddi ég við söngkonuna Katrínu (Introducing Kat) en hún tilheyrir þessum fyrrgreinda hópi. Katrín er búsett í London og gaf nýlega út EP plötuna Heard It All Before. Hún kom til Íslands í síðustu viku til þess að kynna tónlistina sína fyrir samlöndum sínum.

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Katrín Ýr

(Á miðvikudegi, upp úr hádegi, geng ég inn í notalegt kaffihús sem situr á horni Ingólfstorgs. Kaffihús þetta ber nafn með rentu: Stofan. Þetta er eins og að ganga inn í stöfu ömmu minnar heitinnar sem lengi vel bjó á Rauðalæknum. Þar sat maður gjarnan meðal antíkhúsgagna og sötraði kaffi, er gamma amla (a.k.a. amma gamla) rifjaði upp fortíðina með blik í augum: Hótel Borg var víst aðalstaðurinn. Þar var djammað … Ég svipast um staðinn í leit að viðmælanda mínum og er, ég viðurkenni, svolítið illa fyrirkallaður. Það loðar einhver bölsýni við mig líkt og að ég sé ungur Schopenhauer að rýna í meinsemd mannlegra hvata. Ég kem auga á Katrínu í sófanum og hún stendur upp til þess að heilsa mér.)

Katrín: „Hittumst á Stofunni“ – já, einmitt. Ég veit ekki hvað neitt heitir lengur!

(Katrín, sem hefur verið búsett í Bretlandi síðastliðin ár, segist vera í litlu sambandi við reykvískan veruleika. Hún hlær.)

SKE: Hvað hefurðu verið lengi úti?

Katrín: 10 ár.

SKE: 10 ár – „shit.“

(Katrín fluttist út árið 2006 til þess að nema söng. Varúð: Viðtal þetta inniheldur þrálátar enskar slettur.)

SKE: Hvað var þetta langt nám aftur?

Katrín: Þetta voru fjögur ár í heildina – Bachelor of Music in Popular Music Performance.

SKE: „Fancy.“

Katrín: Ég er að kenna þar núna, einn, tvo daga í viku. Svo er ég líka að kenna í heimavistaskóla – þar sem árið kostar fimm milljónir.

SKE: Fimm milljónir.

Katrín: Þetta er mjög ríkt fólk.

SKE: Lávarðar og svoleiðis …

(Ég sé fyrir mér enska útgáfu af Dead Poet’s Society: ungt frambærilegt fólk að kikna undan pressuni í vel straujuðum skólabúningum.)

Katrín: Já, rosa mikið af svona „expats“ („expatriates“). Foreldrar þeirra búa í Hong Kong eða Singapore og hitta börnin sín í fríunum.

SKE: Hvað heitir þessi skóli?

Katrín: Tring Park School for the Performing Arts. Ég fékk eiginlega vinnu óvart. Ein sem var að kenna mér mældi með mér. Veistu hver Ella Henderson er?

SKE: Nei, en samt: „rings a bell.“

(Katrín raular lag eftir Ella Henderson en ég er samt engu nær.)

Katrín: Hún var í þessum skóla. Í kjölfarið á velgengni hennar í X-Factor ákvað skólinn að stofna nýja deild tileinkuð popptónlist.

SKE: Eru þetta allt svona „spoiled brats?“

(„Ofdekruð krakkakvikindi“ heitir þetta víst á íslensku.)

Katrín: Sumir eru fínir, en aðrir ekki; ein hætti vegna þess að það var of mikið að gera – að hennar mati var of mikil pressa á nemendum.

(Katrín setur upp sposkan svip og réttir út faðminn: „Gjörðu svo vel og reyndu fyrir þér í raunveruleikanum: Be my guest.“ Við hlæjum.)

SKE: Hvað verðurðu lengi á landinu?

Katrín: Í viku.

(Katrín kom til landsins til þess að kynna lagið Take Control sem hún gaf út í maí. Við ræðum aðeins útvarpsmáfíuna á Íslandi og hversu erfitt það getur verið að koma lögum í spilun.)

Katrín: Fólk hlustar á þetta og spyr mig: „Af hverju er þetta ekki spilað?“ Ég segi við þau: „Hringdu og biddu um lagið!“

SKE: Þarftu ekki bara að skjóta myndbönd?

Katrín: Nei, ég hef ekki efni á því. Ég er að borga þetta allt sjálf og þetta er svo dýrt í London … en jú, ég þarf sennilega að skjóta myndbönd fyrir næsta verkefni. Það tók mig ár að koma þessar djöfulsins smáskífu út.

SKE: Hver pródúseraði lagið?

Katrín: Það var strákur sem er að nema í háskólanum þar sem ég er að kenna. Hann pródúseraði grunninn af laginu en síðar bætti ég alls konar öðrum hljóðum og hljóðfærum inn í lagið.

(Katrín segir mér frá því hversu mismunandi lögin á EP plötunni eru. Sá sem hljóðblandaði plötuna hefur unnið svolítið fyrir Ellie Goulding. Eins og asni spyr ég hvenær EP platan komi út, en hún kom út í sumar. Katrín teygir sig ofan í töskuna og réttir með plötuna. Ég virði plötuna fyrir mér og held áfram að forvitnast.)

SKE: Það eru nýtískulegir straumar á Take Control, ákveðinn „Drum n bass “ fílíngur í bland við annað …

Katrín: Ég hef alltaf hlustað á „Drum n bass.“ Bróðir minn var náttúrulega „Drum n bass“ plötusnúður.

SKE: En hvernig kom lagið til?

Katrín: Ég samdi lagið á 15 mínútum þegar ég beið eftir nemanda mínum sem mætti ekki í tíma. Ég veit ekki hvaðan innblásturinn kemur, en þessi stefna situr í mér frá því í gamla daga.

SKE: Gamla daga?

(Katrín hlær.)

Katrín: Má maður segja hvað maður er gamall?

SKE: … þú ert 25 ára.

Katrín: Ég er að verða 35 ára … Ég held að ég sé 35 ára „going on“ tvítugt.

(Sem heimsborgari forvitnast ég um stöðu mála í Bretlandi.)

SKE: Hvað finnst þér um Brexit?

Katrín: Heyrðu, ég er ósátt við Brexit því að ég fæ minna fyrir pundið þegar ég kem heim!

(Við hlæjum.)

Katrín: Ég borgaði fyrir eitthvað með breska kortinu um daginn, leit svo á strimilinn og…

(Katrín horfir á ímyndað kort hissa.)

Katrín: Þetta hentar Íslendingum örugglega ágætlega … ekki það – það verður örugglega ekkert gert í þessu.

SKE: Þetta er allavega mjög langt ferli sem er að fara af stað og menn virðast fremur tvístígandi með þetta allt saman …

Katrín: Þetta er í raun könnun, en ekki bindandi lagalega. Ríkið þarf ekki að fylgja þessu.

SKE: Akkúrat …

En það eru margir klikkhausar í Bretlandi sem halda að þetta þýði að allir útlendingar hverfi úr landinu. Ég lenti meira að segja í smá umræðu við mann sem stóð fyrir utan lestastöðina með „vote out“ skilti. Ég spurði hann hvers vegna. Hann sagði að það væru allt of mikið af ómenntuðu fólki í Bretlandi sem ætti ekki heima hérna. Ég sagð við hann: „Ég var líka ófaglærður einstaklingur þegar ég flutti hingað en hef síðan borgað mörg þúsund pund í skatta síðan þá.“ Þá sagði hann mér að hann ætti ekki við mig. Mér fannst þetta half kjánalegt.

SKE: Svo eru líka svo mikið af innflytjendum sem koma frá ríkjum sem standa utan við Evrópusambandið.

Katrín: London er eitt mesta fjölmenningarsamfélag sem þú finnur.

SKE: Ég man einmitt að Guardian birti grein um Ebbw Vale, í Wales, þar sem stór hluti kaus já við Brexit þó svo að Ebbw Vale sé sá bær sem Evrópusambandið hefur styrkt hvað mest og svo eru líka mjög fáir innflytjendur sem setjast að í Ebbw Vale – furðulegt.

https://www.theguardian.com/uk-news/2016/jun/25/vi…

Katrín: Ég var einmitt að tala við tvo unga stráka, á að giska 18, 19 ára, og foreldrar þeirra eru innflytjendir en þeir kusu samt með Brexit.

SKE: Hvers vegna?

Katrín: Vegna þess að þeir voru svo hræddir um að Tyrkland væri á leið inn í Evrópusambandið.

SKE: Hmmm …

Katrín: En ég hef nú ekki miklar áhyggjur af þessu – fyrir utan bankareikninginn.

(Katrín hlær.)

SKE: Varstu úti á meðan England spilaði á móti Íslandi?

Katrín: Já, Íslendingafélagið í London leigði pub handa meðliðum og við fórum. Ég er ekki mikil fótboltaaðdáandi en styð Ísland. Ensku vinir mínir voru alls ekki sáttir. Ég hringdi örugglega í fjóra vini mína, sem eru miklir aðdáendur enska landsliðsins, eftir leikinn og það svaraði mér enginn. Þjóðarstoltið maður!

SKE: Var ekki mórallinn í algjöru lágmarki eftir þetta allt saman?

Katrín: Erfiðast fannst mér að horfa upp á framkomu manna í garð Pólverja í kringum Brexit. Ég bý í hverfi þar sem margir Pólverjar búa og það er miðstöð fyrir pólskt fólk þarna í nágreninu og menn grýttu eggjum í átt að miðstöðinni og skildu eftir miða á bílunum þeirra þar sem þau var hvatt til þess að yfirgefa landið.

SKE: Skrítnir tímar.

Katrín: Jájá, en þetta er allt að koma.

SKE: Ætlarðu að spila hérna heima á næstunni?

Katrín: Ég sótti um Airwaves en ef ég kemst ekki að þá ætla ég að skipuleggja tónleika hérna heima í vetur. Ég hélt tónleika í nóvember í fyrra, þegar ég gaf út fyrsta lagið. Svo var ég einnig með Adele Tribute tónleika á Rosenberg.

SKE: Hvernig gekk það?

Katrín: Það gekk mjög vel. Það var uppselt. Mig langar að endurtaka leikinn en ég held að ég einbeiti mér fyrst að því að koma minni tónlist á framfæri. Ekki nema að maður blandi þessu eitthvað saman. En ég ætla að bíða eftir svari frá Airwaves áður en ég skipulegg eitthvað.

SKE: Þá yrði þetta í nóvember eða desember?

Katrín: Já, eða í byrjun næsta árs. Þegar ég er komin með meira efni.

SKE: Eru fleiri lög væntanleg?

Katrín: Já, og ég er að fara hitta Gnúsa Yones á eftir. Maður er alltaf að brugga eitthvað. Ég á mikið af efni en mikið af því er óklárað. En þetta kemur, næsta hálfa árið. Á maður ekki að negla einhverja dagsetningu? Setja smá pressu á sig?

SKE: Jú, engin spurning.

(SKE hvetur alla til þess að kynna sér tónlist Katrínar nánar.Einnig mælir SKE sterklega með samheldni, umburðarlyndi og þrautseigju.)

Auglýsing

læk

Instagram