Erna Ómarsdóttir

„Flestir sem hafa einhverja ástríðu og eitthvað að segja eiga möguleika á að geta orðið dansarar.“

GALDRAR ERNU ÓMARSDÓTTUR

Ernu Ómarsdóttur Kópavogsmær þarf vart að kynna en hún er einn virtasti dansari og danshöfundur Íslendinga, hefur unnið með nokkrum fremstu dans- og sviðlistahópum Evrópu og starfar nú sem listrænn ráðgjafi Íslenska dansflokksins.

Erna var önnum kafin við undirbúning á sýningunni BLÆÐI: OBSIDIAN PIECES, samstarfsverkefni Íslenska dansflokksins og Listahátíðar í Reykjavík, þegar blaðamaður SKE náði af henni tali. Sýningin samanstendur af brotum úr vel þekktum dansverkum eftir Damien Jalet og Sidi Larbi Cherkaoui en seinni hlutinn, Black Marrow, er verk eftir hana sjálfa og Jalet sem státar af frumsaminni tónlist eftir Ben Frost.

SKE leikur forvitni á að vita hvers vegna Erna gerðist dansari og hvað fjölskyldu hennar hafi fundist um þá ákvörðun

„Ég vissi að ég vildi verða skapandi dansari og mögulega danshöfundur þegar ég sá sýninguna May B eftir Magy Marin, sem sýnd var á Listahátíð Reykjavíkur í kringum 1986,“ segir Erna. „Verk þetta varð síðar sögufrægt og er enn sýnt í dag. Í minningunni var það með gömlu fólki af öllum stærðum og gerðum og fjallaði alls ekki um þessa stöðluðu fegurðarímynd í dansinum sem fólk var vant að sjá. Þar sá ég að dansinn gat fjallað um meira en að sparka fótleggjum upp í loftið, gera margfaldar pírúettur eða vera liðugur og sexý. Dansinn þyrfti ekki að vera á yfirborðinu, heldur gæti hann túlkað margt annað – fegurðina í ljótleikanum og eitthvað dýpra.“

„Ég held ég hafi verið mjög heppin með það hvernig ég ólst upp í Kópavoginum. Ég eignaðist fljótt dásamlegar vinkonur sem ég á enn í dag og á foreldra sem eru með fæturnar á jörðinni, mjög réttsýnt og yndislegt fólk. Ég veit að þau voru smá hrædd um mig þegar ég fór á vit ævintýranna að elta dansdrauminn,“ segir Erna kankvís. „Þau hljóta að hafa hugsað: Hún er ekkert að fara að lifa á þessu, og svo er þetta stórhættulegt að fara svona ung alein til útlanda. En ég er þrjósk og gef mig ekki auðveldlega ef ég er búin að bíta eitthvað í mig.“ Erna segir þó að foreldrarnir hafi hægt og rólega fengið trú á að hún gæti aflað sér lífsviðurværis í dansheiminum. „Í dag eru þau alveg búin að samþykkja þetta. Mamma er listakona, þannig að hún skilur þetta alveg, en þetta var aðeins erfiðara fyrir pabba. Ég held þó að hann sé alveg nokkuð sáttur við þetta í dag.“

Það er algjör endemis vitleysa að halda að þú getir aldrei orðið dansari bara útaf einhverjum smáatriðum eins og að þú hafir ekki útsnúning, sért með lélegar ristar, óheppilegan vöxt eða stirður

– Erna Ómarsdóttir

Erna flutti nýverið heim eftir 20 ár erlendis, þá ólétt af öðru barni sínu, og hóf störf sem listrænn ráðgjafi hjá Íslenska dansflokknum.

„Ég hafði áður starfað fyrir dansflokkinn sem danshöfundur og þekkti því ágætlega til. Fyrir mörgum dönsurum er dansflokkurinn fjarlægur, og þannig var hann fyrir mér. En mér finnst það ekki þurfa að vera þannig. Það eru margir frábærir dansarar á landinu og gaman væri að geta gefið fleirum tækifæri til að vinna með flokknum á einn eða annan hátt. Hópurinn sem er núna að dansa í Blæði er til dæmis samansettur af einstaklingum sem hafa mjög ólíkan bakgrunn en allir hafa mjög góða kosti. Það er til dæmis ekki nauðsynlegt að allir séu með góðan bakgrunn í klassískum ballett, þó það sé samt ekki verra. Einn dansarinn, Sergi Paréz, hefur sem dæmi aldrei farið í ballett á ævinni og er þjálfaður í sirkustækni.

Það er algjör endemis vitleysa að halda að þú getir aldrei orðið dansari bara útaf einhverjum smáatriðum eins og að þú hafir ekki útsnúning, sért með lélegar ristar, óheppilegan vöxt eða stirður. Flestir sem hafa einhverja ástríðu og eitthvað að segja eiga möguleika á að geta orðið dansarar. Ég fékk einhvern tímann svona glataða gagnrýni í dansskólum í Rotterdam, þar sem margir voru frekar ferkanntaðir. Sem nemandi getur það verið hættulegt að fá svona dauðadóm, en það getur líka verið hvatning til að sanna sig. Þú þarf þó að hafa ansi harða skel í þessum bransa og gefast ekki upp þótt móti blási. Það eru bara svo margar leiðir til í dansinum: Ef þú færð NEI á einhverjum stað getur það bara þýtt JÁ á einhverjum öðrum stað. Það er svo mikið af ólíkum formum til í dansi.“

Maki Ernu Ómarsdóttur er Valdimar Jóhannsson, en þau vinna einnig náið saman. Hvers vegna varð Valdi fyrir valinu?

„Hann var bara heppinn!“ Segir Erna hlæjandi með blik í auga. „Það var liðið svona ár eftir að fyrra sambandi lauk eftir 7 nokkuð stormasöm ár. Ég var brennd eftir það samband þannig að ástin kviknaði hægt og rólega. Eftir fyrra samband lagðist ég bara í vinnu og bjó til dansverk. Það voru nokkur dansverk sem urðu til á þeim tíma. Valdi sá mig víst fyrst þegar ég var að öskra úr mér lungun í Klink og bank á sýningu með Poni, sem var listamannacollective frá Brussel sem ég var meðlimur í og var stofnandi að ásamt fyrrverandi kærasta mínum.

Við töluðum svo fyrst saman þegar ég var að vinna fyrir Björk í tónlistarmyndbandinu „Where is the line“ þar sem ég var í gervi slímugs drýsils sem fæddist út úr Björk. Ég var öll hvít og þakin í hveitidrullu og matarlími, með hvítar linsur og var frekar ógeðsleg en ég held að Valda hafi fundist ég sæt svona, hann sá einhverja fegurð í ljótleikanum og elskaði öskrin mín í Poni sýningunni. Valdi var að hjálpa til við leikmyndina í tónlistarmyndbandinu. Síðan var ég að gera mitt annað verk með Jóhanni Jóhannssyni tónskáldi , en það verk hét akkúrat Mysteries Of Love. Þá vantaði okkur gítarleikara fyrir loka atriðið og Jói fékk Valda með. Ég var aðallega með hugann við að gera þetta show og að það þyrfti að takast vel. Svo var hann bara dásamlega skemmtilegur drengur, frekar myndarlegur og með skemmtilegan svartan húmor. Hann varð alltaf myndarlegri með hverjum deginum og kom mér á óvart. Þú kynnist manneskju og finnur að það er eitthvað gott þarna á bakvið hana. Hann er Vestfirðingur, frá Ísafirði. Þar eru galdramenn. Það er líka Vestfjarðablóð í ættinni minni. Galdrakonur og -menn komu frá Vestfjörðum. Mér finnst gaman að segja frá því. Í Íslandssögunni eru mikið af galdramönnum fyrir vestan sem voru sumir brenndir á báli. Það er mjög sérstakt að kynnast Vestfirðingum. Þeir geta verið ansi orðljótir en með skemmtilegan húmor, margir hverjir.“

Í dag er óhætt að segja að vinnan, tilhuga- og fjölskyldulífið renni allt saman hjá Ernu og Valda. „Til dæmis settum við koss inn í eitt verkið. Við höfðum varla haft tíma til að fara í sleik upp á síðkastið, þannig við settum það bara inn í verkið. Hann er svona þúsundþjalasmiður – hann kann allt og getur allt. Hann er ,n aðallega tónlistarmaður. Nú er hann meira að segja farinn að dansa í verkunum og gerir það betur en ég. Við eigum mjög erfitt með að vera án hvors annars lengi. Ég vil helst hafa hann með í öllu, sko. Hann er líka miklu skemmtilegri en ég. Gott að hafa hann með, ég er rosalega leiðinleg“ segir Erna með kitlandi hlátri og tekur sig greinilega ekki hátíðlega.

Erna hefur verið kölluð Björk dansheimsins í erlendum blöðum og því hefur SKE gaman af að forvitnast nánar út í samstarf Ernu og Bjarkar.

Samstarf Ernu og Bjarkar kom til í gegnum Gabríelu Friðriksdóttur, sem þær höfðu báðar unnið með. „Gabríela fékk mig til að taka þátt sem dansari í einu tónlistarmyndbandi Bjarkar, eins og ég minntist á áðan. Þar kynntumst við og höfum haldið sambandi síðan,“ segir Erna og segir hún Björk hafa verið fyrirmynd sína að mörgu leyti, bæði sem listakona og manneskja. „Björk bað mig svo um að hjálpa sér með hreyfingar í „The Black Lake“ af nýju plötunni Vulnicura, sem er nokkuð langt lag. Myndbandið var sett upp sem myndbandsinnsetning í MoMa. Lagið fjallar um ástarsorg og það sem fylgir því að skilja við einhvern sem þú hefur elskað.

Mér finnst mjög gaman að vinna með fólki sem eru ekki þjálfaðir dansarar og geri það stundum í sýningum mínum. Fólk sem er með svona persónulegan, náttúrulegan og ómengaðan hreyfistíl eða líkamstungumál. Björk kom með sitt inn í hreyfingarnar og hún er með þetta náttúrulega hreyfiafla,“ segir Erna og bætir við að það hafi verið ákaflega gefandi að vinna með henni.

Að viðtali loknu leyfir SKE Ernu að halda áfram í sköpunarferli sínu og undirbúningi fyrir væntanlega frumsýningu. Forvitnir dansáhugamenn og aðrir listunnendur geta mögulega nælt sér í miða á BLÆÐI, það er að segja ef það verður ekki uppselt þegar SKE kemur út, en aðeins tvær aðrar sýningar verða í boði auk frumsýningarinnar, þann 25. og 28. maí.

Auglýsing

læk

Instagram