„Hægara sagt en gert að semja um gleði.“ MIMRA á Rósenberg í kvöld

Viðtöl

SKE: Tónlistarfólk er eina fólkið sem aflar fjár með viðeigandi, sómasamlegum máta: klappstýrur bóna bíla (að minnsta kosti í bandarískum bíómyndum), alþingismenn selja atkvæði, ungt fótbóltafólk selur klósettpappír en tónlistarfólk heldur sig við það sem það kann best  að spila tónlist. Um þessar mundir stendur söngkonan, tónskáldið og pródúsentinn MIMRA fyrir tilbærilegri fjáröflun fyrir útgáfu plötunnar Sinking Island (á vefsíðunni Karolina Fund) og í þessari viðleitni sinni treður hún upp á Rósenberg í kvöld. Um ræðir 12 laga hljómplötu sem mun líta dagsins ljós í nóvember 2017 í formi geisladisks og vínyls – og munu fjármunirnir einnig nýtast í tónleikahald. Í tilefni útgáfunnar forvitnaðist SKE nánar um málið. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: María Magnúsdóttir
Ljósmynd: Tinna Schram

SKE: Sæl, MIMRA. Sérstakir styrktartónleikar á Rósenberg í kvöld. Hvers vegna Rósenberg? 

MIMRA: Rósenberg er bara dásemdarstaður. Ég hélt mína allra fyrstu tónleika þar, árið 2005, ef ég man rétt. Mér hefur alltaf fundist staðurinn svo kósý og passlegur, eins og ég sé að bjóða áhorfendum inn í stofu þegar ég spila þar.

Platan ber titilinn Sinking Island – hvaðan kemur nafnið? Hefur þetta eitthvað með hlýnun jarðar að gera?

MIMRA: Hahaha, nei. Vildi að ég væri svo pólitísk en ég sem nú oftar á persónulegri nótum. Sinking Island er sjöunda lagið á plötunni, titillagið. Í textanum er sögupersónan í loftbelg að flýja eyju sem sekkur hægt og rólega. Akkerið hafði ryðgað fast þann tíma sem hún reyndi að halda eyjunni á floti, en hún losar sig og flýgur að lokum burt til að bjarga sjálfri sér.

Ef þú yrðir að selja lesendum plötuna með örstuttri lyfturæðu („elevator speech“) hvernig myndi sú söluræða hljóða?

MIMRA: Úff, erfið spurning … tónlistin verður bara að tala sínu máli. Tónlistin mín talar til margra, sérstaklega þeirra sem taka inn texta. Ef þú ert aðdáandi Bat for Lashes, Feist og Laura Mvula er MIMRA fyrir þig. Og þegar þú fílar mússík frá litlum listamönnum skaltu ekki hika við að styðja listamanninn með því að kaupa tónlistina frá þeim.

Hver er munurinn á Maríu og MIMRU?

MIMRA: Það er nefninlega smá munur. Maður fæst við svo margt að það er ekkert skrítið að skipta sér upp. María Magnúsdóttir er tónlistarkonan, söngkonan og tónskáldið, maður tekur að sér hin ýmsu tónlistarverkefni og er alltaf María. MIMRA er hins vegar listamannsheitið mitt, tónlistarafurð mín og mitt hugarfóstur og þannig eitt þessara verkefna. Tónlist MIMRU er mjög persónuleg á sama tíma og hún er stórbrotin og leitar nýrra leiða við að sameina kammerpopp og elektró.

Ef þú yrðir að velja titil og undirtitil sjálfsævisögu þinnar (t.d. Óviss alki; saga um efablendni og efnablöndur)?

MIMRA: Leitin að lífshamingjunni; limbó nýrra tinda

Þú gafst nýverið út lagið Mushroom Cloud og það fjallar um, að eigin sögn, hversu hátt fjölskyldan þín skellir upp úr. Þetta verður að teljast frekar óhefðbundið yrkisefni. Hver er sagan á bak við lagið?

MIMRA: Mushroom Cloud var lag sem ég samdi fyrir útskriftartónleikana mína í Hollandi. Ég samdi það fyrir stóra hljómsveit og vildi hafa það hamingjulag. Það er svo auðvelt að semja útfrá sorg og sút en hægara sagt en gert að semja um gleði. Svo þegar ég gróf eftir efnivið datt mér í hug að fjalla um smitandi hlátur, hvernig skellibjöllufjölskyldan mín springur úr hlátri eins og atómbombur og hvernig ég og systkini mín lékum okkur í fjörunni sem börn.

Besta fjárfesting fyrir minna en 20.000 ISK í ár?

MIMRA: Dásemdar skvísuskór af asos.

Ef e-h ákveður að styrkja verkefnið með 100.000 króna framlagi hvað fær sá hinn sami í staðinn?

MIMRA: Vá. Sá hinn sami fengi ástarþakkir til tunglsins og til baka!
Plötuna áritaða á geisladisk og á vínyl ásamt stafrænu niðurhali. Fjóra miða á útgáfutónleikana í Tjarnarbíói þann 8. nóvember og síðast en ekki síst byði ég upp á tónleika í heimahúsi við gott tækifæri.

Uppáhalds bók – hvers vegna?

MIMRA: Óreiða á striga og Karitas án titils eftir Kristínu Marju Baldursdóttur. Því hún er raunsæ saga listakonu gegnum umrótatíma 20. aldarinnar og ég var með hana á heilanum í nokkur ár eftir að ég las hana fyrst.

Eitthvað að lokum?

MIMRA: Já, ég er með tónleika í kvöld kl. 21:30 á Rósenberg Reykjavík. 2.000 kr. inn og allir hjartanlega velkomnir. Stuðningur með því að kaupa plötuna mína fyrirfram á Karolina Fund væri virkilega vel þeginn. 

(SKE þakkar MIMRU kærlega fyrir spjallið og hvetur alla til þess að mæta í kvöld sem og að leggja verkefninu lið. Hér fyrir neðan er hlekkur á Karolina Fund með öllum frekari upplýsingum.) 

https://www.karolinafund.com/project/view/1791

Auglýsing

læk

Instagram