Mikilvægt „að segja hlutina upphátt.“—SKE spjallar við Braga Árnason

Auglýsing

Viðtöl

SKE: Í dag stundar annar hver maður hugleiðslu. Markmið hugleiðslunnar, eins og þýski hagfræðingurinn E. F. Schumacher orðaði það, er „nakin athygli: skýr og einbeitt meðvitund um það sem hendir okkur, bæði innra með og ytra. Hún eða hann sá sem hefur náð valdi á nakinni athygli gengst við heiminum eins og hann kemur fyrir sjónir—án dóms eða afneitunar. Þar af leiðandi finna flestir, sem ástunda hugleiðslu samviskusamlega, innri frið. Sú var hins vegar ekki raunin fyrir leikarann og tónlistarmanninn Braga Árnason; er hann væntanlega eini Íslendingurinn sem hefur beint athyglinni inn á við, ofan í hyldýpi meðvitundarinnar, og komist í tæri við marbendil: þjóðsagnatengda furðuveru sem býr í eða við sjó. Í söngleiknum Þegar öllur er á botninn hvolft, sem Bragi sýnir næsta sunnudag í Mengi, tekst hann, að hluta til, á við þessa furðuveru. Líkt og segir á síðu viðburðarins á FB: Þegar öllu er á botninn hvolft er Söngleikur, byggður á einlægri sögu sviðslistamannsins Braga Árnasonar um það hvernig hann tókst á við lífið, listina, drauma og ástir en umfram allt sjálfan sig í stórborginni Lundúnum þar sem ýmsar kynjaverur urðu á vegi hans og stutt var oft milli hláturs og gráturs. Í tilefni sýningarinnar heyrði SKE í Braga og forvitnaðist um músík, mikilvægar lexíur og marbendla. Gjörið svo vel. 

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Bragi Árnason

SKE: Sæll, Bragi. Hvað segirðu þá?

Auglýsing

Bragi: Ég er er ansi brattur, takk! 

SKE: Á sunnudaginn verður sérstök aukasýning á söng- og leikverkinu Þegar öllu er á botninn hvolft haldin í Mengi. Um er að ræða sjálfsævisögu í söngleikjaformi. Hvernig kom þessi hugmynd til?

B: Ég hef alltaf elskað söngleikjaformið. Það var kominn tími til að ég gerði lífshlaupi mínu skil á einhvern hátt, til að skilja það betur sjálfur. Ég segi samt alltaf að þetta er skáldað verk, innblásið af minni sögu. 

Nánar: https://www.facebook.com/events/667016967094033/

SKE: Ef undirritaður yrði að nefna eina sjálfsævisögu sem hefur haft hvað mestu áhrif á hann yrði sjálfsævisaga bandaríska höfundarins Mark Twain líklega fyrir valinu. Hvaða ævisaga hefur haft mestu áhrif á þig?

B: Mér fannst ævisaga Marlon Brando, Songs My Mother Taught Me, mjög áhugaverð—þó svo að hann hafi verið umdeildur karakter, og komið illa fram við fólk. 

SKE: Hvað er það mikilvægasta sem þú hefur lært í ferlinu við mótun verksins?

B: Að halda áfram.

SKE: Sviðsverkið er lokaverkefni þitt í evrópsku mastersnámi í sköpun, miðlun og frumkvöðlastarfi við Listaháskóla Íslands. Sem sköpunarmeistari, ef svo mætti að orði komast, hvernig skilgreinir þú hugtakið sköpun?

B: Þetta er í raun miðlun. Eða sía. Ég sé eitthvað og sía því í gegnum þau tól sem ég hef. Söguefniviðurinn í þessu tilfelli eru raunverulegir atburðir og lögin innblásin af lögum og hljóðum sem ég hef heyrt.

SKE: Hlaðvarpið Soul Music sem breska ríkisútvarpið (BBC) gefur út er í miklu uppáhaldi hjá undirrituðum. Í þættinum er eitt lag í brennidepli hverju sinni og segja gestir þáttarins frá því hvernig þeir tengjast laginu og hvers vegna það hefur svo mikla þýðingu fyrir þeim. Í anda þessa þáttar langar okkur að spyrja: Eitt lag sem allir verða að heyra—og hvers vegna?

B: Lagið Vincent eftir Don Mclean hefur að geyma alveg gullfallegan texta sem er svo ríkur af myndum og myndmáli um lífshlaup listmálarans Vincent Van Gogh að orð fá því ekki lýst. Melódían er ekki flókin og takturinn er frjálslegur sem gerir það örlítið „klassískt“ í stílnum, og opið fyrir túlkun. Þetta er hið fínasta lag.

SKE: Marbendillinn spilar lykilrullu í verkinu, og þá sem einskonar dulið hliðarsjálf: táknmynd undirmeðvitundar höfundar (rétt skilið?). Fyrir þá sem heyja sambærilega baráttu við andlega djöfla, hvaða ráð hefurðu?

B: Jú, það er rétt, eins og ég sé núna: Segja hlutina upphátt. Það er enginn fullkominn og orkan inni í okkur getur verið beisluð í bæði góða og slæma hluti. Hægt er nota listina til að sjá þessar hliðar í samhengi og díla betur við þær. Svo getur það verið mikil gæfa að hafa fagmanneskju til að tala við. 

SKE: Hvernig myndirðu lýsa sjálfum þér?

B: Hmmm … Ég er ör, legg mig fram við að vera einlægur, get stundum stressast að óþörfu, leiðist auðveldlega en er að breyta því viðhorfi. Forvitinn og vissulega söngglaður og vil nú oftast sjá broslegu hliðina á hlutunum, þó auðvitað sé alltaf staður og stund.

SKE: Uppáhalds tilvitnun eða textabrot?

“Life is what happens to you while you’re busy making other plans.”—John Lennon

SKE: Eitthvað að lokum?

B: Ég vil hvetja til frekari notkunar á söngleikjaforminu í sköpun fyrir þau sem finnst svoleiðis gaman. Þetta er ansi skemmtileg leið til að segja sögu, tvinnaða saman við leik og söng, þarf ekkert stórt Broadway dansatriði—bara traustan sögukjarna.

(SKE þakkar Braga Árnasyni kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að láta sjá sig í Mengi næsta sunnudag.)

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram