Steiney hunsaði Louis C.K.

Viðtal / Viðburður

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælandi: Steiney Skúladóttir
Ljósmynd: Móa Gustum

Í kvöld verður ársfundur
rappsenunnar haldinn á Húrra og mun sá ársfundur teygja sig yfir helgina eins
og langdregin, óvægin þynnka og ljúka að kvöldi sunnudags. Á ársfundinum munu
margir hátt settir rappkettir taka til máls og halda erindi í bundnu máli um torræðu tilvist mannsins ásamt öllu því sem að henni lítur. Á meðal þeirra sem taka
þátt í pallborðsumræðum er Steiney Skúladóttir, hluthafi í samlagsfélaginu Reykjavíkurdætur,
en hún mun ávarpa gesti fundarins á laugardagskvöldið. Í tilefni þess heyrðum
við í Steineyju og lögðum fyrir hana nokkrar vel til fundnar spurningar.

Sæl og blessuð, Steiney – hvað er helst í fréttum?

Hæ hæ hæ. Helst í fréttum er að Hraðfréttir voru að hætta, deyja og koma aldrei aftur. Improv Ísland sýningar eru á fullu og Reykjavíkurdætur eru að springa út í heim.

Nice one … ef þú yrðir að lýsa sjálfri þér eins og fasteign í auðmannahverfi í London – hvernig myndi sú frásögn hljóða?

Ég hef aldrei lesið fasteignalýsingar í London en er dáldið að skoða þær hérna heima. Ég væri þriggja herbergja íbúð í vesturbænum með nýuppgerðu baðherbergi og suðursvölum. Mjög næs týpa.

Laugardaginn 14. maí spila Reykjavíkurdætur á Húrra (Rapp í Reykjavík). Hvers vegna á fólk að láta sjá sig?

Af því það er sick line up. Við erum að tala um Aron Can.

Hvern styður þú til embættis forseta Íslands?

Mér þætti mjög gaman ef Davíð Oddsson myndi vinna því ég var svo ung þegar hann hætti í stjórnmálum þannig ég hef aldrei upplifað hann. Áhugavert að sjá hvort hann sé eins mikill kjáni og fólk segir. En náttúran er samt mikilvægari en mitt skemmtanagildi.

Hvenær kemur RVKdætra platan út?

Í júní. Hún fer í framleiðslu í næstu viku!!!

Hver er helsta ógnin sem steðjar að mannkyninu?

Græðgi mannsins. Úff klisjukennt.

Hvað hefur improv kennt þér um lífið?

Mjög margt. Hef séð það svart á hvítu þar að þú uppskerð eins og þú sáir, hæfileikar koma þér bara ákveðið langt. Líka að bestu hugmyndirnar verða til við samvinnu. Ekki vera hrædd, treysta innsæinu, ekki hika og fara alla leið með hugmynd.

Á hvað ert þú að hlusta á þessa dagana – og hvað ert þú ekki að hlusta á?

Ég fann sountrackið úr Litlu hryllingsbúðinni sem var í Borgarleikhúsinu 1999 á Spotify um daginn, er búin að vera að blasta því. Er ekki að hlusta á Lemonade því hún er ekki á Spotify 🙁

Ef þú yrðir að velja áletrun á grafsteininn þinn, hver yrði sú áletrun?

Eitthvað mjög sorglegt eins og “Hún kemur aldrei aftur” eða “Hún lifði en nú er hún dáin.”

Er riddaramennskan dauð?

Ég veit ekki nákvæmlega hvað það þýðir. Er það svona halda hurðum? Bara flott fyrir alla að gera góðverk eða eitthvað.

Ef þú mættir velja fyrirsögn þessara greinar – hver yrði sú fyrirsögn?

Hunsaði Louis CK.

SKE þakkar Steineyju kærlega fyrir spjallið. Nánari upplýsingar um Rapp í Reykjavík má finna hér:

https://www.facebook.com/events/1089032167826790/

þriggja-daga armband kostar 6,000 ISK á meðan aðgangur að stöku kvöldi kostar 3,000 ISK. Meðal þeirra sem koma fram eru Forgotten Lores, Sturla Atlas, Herra Hnetusmjör, Úlfur Úlfur, Kött Grá Pje, GKR, Cell 7 og fleiri.

Auglýsing

læk

Instagram