„Gerðu eitthvað sem gleður þig.“

SKE: Það eru safarí, skoðunarleiðangrar þar sem ferðalangar freista þess að festa sjónir á dýralífi austur-Afríku – og svo eru það Fox Train Safarí, hlustunarleiðangrar þar sem ferðamenn leitast við að njóta tónlistar sem rekur rætur sínar til norður-Atlantshafsins. SKE hefur gaman að náttúrulífinu  og elskar fíla og ljón og gíraffa og apa  en það er dýrt að fara í safarí. Verandi févana bóhemar, sem sólunduðu síðustu aurunum á barnum, kjósum við frekar síðarnefnda kostinn: klæðum eyrun í flókahatt og safaríjakka, og leggjum af stað, leggjum við hlustir… Um daginn sendi hljómsveitin Fox Train Safari frá sér sína fyrstu plötu. Platan ber titilinn 01 og geymir níu lög. SKE heyrði í Kristjáni, Unni og Rafni og spurðist fyrir um fortíðina, nútíðina og framtíðina.

Viðtal: Ragnar Tómas
Viðmælendur: Kristján Hafsteinsson, Unnur Karen Karlsdóttir, Rafn Emilsson.
Ljósmynd: Pernille Lassen
Grafík við mynd: David Young

SKE: Til hamingju með plötuna. Hún
er stórgóð! En er eitthvað vit í því að gefa út plötu nú
til dags?

Kristján: Það er túlkunaratriði;
það hefur ekki jákvæð áhrif á efnahaginn en það nærir
sálina, okkar og vonandi annarra líka. Það tók langan tíma að
koma þessari plötu frá okkur, en hún heitir 01 og markar upphaf.

Unnur: Já, algerlega. Þetta er stór
þröskuldur til að stíga yfir – að verða útgefin hljómsveit.

SKE: Refalestasafarí: Hvaðan
kemur nafnið?

Kristján: Hér væri hægt að vera
með rosalega langt og flókið og djúpt svar en ég stóð fyrir
framan plötuhilluna heima og sá þar Are You Experienced með
The Jimi Hendrix Experience (sem inniheldur lagið Foxy Lady); Blue
Train
með Coltrane (það átti að vera Trane í laginu en
breyttist fyrir mistök sem þykir betra); og Moon Safari með
Air .

Unnur: Flóknara var það ekki …

Rafn: Já, ég held að plötuhillan
hans Kristjáns eigi þetta alveg skuldlaust.

SKE: Lögin More Than A Few
og Að Láni eru í miklu uppáhaldi hjá SKE. Hvaða lag
stendur ykkur næst?

Kristján: Úff, þetta er erfið
spurning. Að láni er fyrsta lagið sem varð til eftir að
við hittum Unni. En ég get annars ekki gert upp á milli þeirra,
eða kannski … Kill Shot.

Rafn: Já… það er víst bannað að
gera upp á milli barnanna sinna, en það var mjög sérstakt
hvernig Að láni stökk bara fram fyrsta korterið sem við
hittumst. Ætli það hafi ekki sannfært okkur um að við ættum að
hittast oftar.

Unnur: Já, hjá mér stendur Kill
Shot
upp úr, þar fer ímyndunaraflið mitt á flug í myndrænni
merkingu.

SKE: Teljið þið að tónlist sé
skotspónn hugans?

Kristján: Það er hægt að segja
það, fyrir mér er tónlist hrein tjáning. Eða, hún ætti að
vera það. Tónlist gefur okkur tækifæri til þess að tjá okkur
hömlulaust. Það er ástæðulaust að draga eitthvað til baka.

SKE: Það er mikil sál í
Refalestinni. Hver er lykillinn að sálinni?

Kristján: Ástin.

Rafn: Þetta er held ég talnalás hjá
okkur og allir með eitt númer.

Unnur: lífsreynslan, viljinn og
samheldnin. Fyrir utan þægilega og kósý nærveru refamanna.

SKE: Eru einhverjir tónleikar
framundan?

Kristján: Já, við erum að setja
saman mikla dagskrá fyrir næstu mánuði. Jólamánuðurinn fer í
skipulagsvinnu. Það er ekkert grín að planera tónleika með
svona mikið af fólki! En það verður nóg af tækifærum til þess að sjá
okkur spila á næstunni. Og ef það er einhver sem vill fá okkur
til að spila fyrir sig þá getur hann haft samband hér á Facebook
eða með því að senda skilaboð á Kristjan@foxtrainsafari.com.

SKE: Í ár misstum við marga góða
listamenn: Bowie, Prince, Cohen. Hver af þessum listamönnum hafði
hvað mestu áhrif á Fox Train?

Kristján: Þetta hefur verið erfitt
ár, Bowie var jafn mikið á heimilinu í uppvextinum og Pabbi,
Prince er goðið og Bernie Worrell (sem dó líka í ár) hefur haft
mikil áhrif á mig.

Rafn: Þetta voru allt snillingar, en
mamma var alltaf með Cohen í gangi þegar ég var yngri. Tengi hann
við allt frá jólaboðum og yfir í það að ryksuga, hef alltaf
verið veikur fyrir svona textasnillingum.

SKE: Hljómsveitin Digable Planets
sá ykkur spila á Airwaves og var harðánægð. Rapparinn og
beatboxer-inn Christylez Bacon steig meira að segja á svið með
ykkur, höfum við heyrt. Ef þið gætuð gert lag með hvaða
listamanni sem er, lífs eða liðinn, raunverulegur eða ímyndaður,
hver yrði fyrir valinu?

Kristján : Úff, já það var svolítið magnað, og kannski eitthvað meira að frétta af því síðar. En
hver sem er … ég held ég verði að segja Prince eða Stevie
Wonder, D’Angelo og Donny Hathaway eru líka
„up there.“

Rafn: … getum við ekki bara bætti
Jimi og Clapton í bandið í leiðinni Kristján og málið er
dautt?

Unnur: Method man, Lauren Hill, Bob
Marley, George Michel og Pavarotti.

SKE:
Viðskiptajöfurinn, svokallaði, DJ Khaled gaf út bókina
Lyklarnir að velgengninni nú um daginn, en þar reifar hann
þær lífsreglur sem hafa orsakað eigin velmegun, að eigin sögn. Hafið þið
eitthvað til málsins að leggja?

Kristján: Án þess að hafa lesið
bókin hans DJ: Ekki eyða lífinu í
leiðinlega hluti. Gerðu eitthvað sem gleður þig og þá sem þér
þykir vænt um.

Rafn: Vel mælt … hljómsveitarpabbi
er með þetta.

Unnur: Hef nú ekki lesið bókina hans
heldur, en mínar lífsreglur eru að bjóða sjálfum sér góðan
daginn alla daga, augliti til auglitis í speglinum, varast alla
sjálfsvorkun. Muna að þú fæðist og að þú deyrð, það er
vitað fyrir víst … restin kemur til þín „naturally.“

Helsta vandamál íslensks
samfélags?

Kristján: Neikvæðni.

Unnur: sjálfsvorkun, þröngsýni,
leti og frekja.

Eitthvað að lokum?

Unnur: Hreinsun tíð og tíðar, í
vatninu vott
Straumur endurnýjar leyndardóma
mannsfólks
Sagan hvarf í frostið og í jöklinum
gróf

Sólargeislinn bræðir, flæðir burt nú týnd slóð
Spor í bratta fjallsins, urð og grjót
upp í mót
Skríða dettur fallinn, sex fet oní
moldarhólf
Vot minning mannsins er líf í vatni
óx
Upp á ný hefst ferðin um leyndardóma
mannfólks
(Höf: Unnur Karen Karlsdóttir)

(SKE hvetur lesendur til þess að leggja af stað í hlustunarleiðangur og hlýða á plötuna 01 frá Fox Train Safari. Jafnframt mælir SKE sérstaklega með lögunum Að láni og More Than A Few, sem urðu, að okkar mati, sígild samstundis, sumsé, „instant classics.“)

Nánar: https://play.spotify.com/album…

Auglýsing

læk

Instagram