„Öll með okkar sérsvið innan tónlistarinnar.“—SKE spjallar við Ösp Eldjárn (Hrím)

SKE: Í umfjöllun sinni um lagið „Come Lay Low,“ eftir íslensku hljómsveitina Hrím, ritaði blaðamaðurinn Arnaud Marty að lagið minnti hann einna helst á „byggingarlist í formi tilraunakennds norræns popplags (sumsé „architectural piece of experimental Nordic pop“). Undirritaður klóraði sig lengi í höfðinu yfir þessari lýsingu og velti því fyrir sér, aðeins seinna, hvort að Marty væri ef til vill að vísa í Goethe, sem sagði—eins og margur veit—að arkitektúr væri freðin tónlist og, að sama skapi, að tónlist væri byggingarlist í vökvaformi („music is liquid architecture“). Í kjölfar þessara vangaveltna gat undirritaður ekki annað gert en að spyrja sjálfan sig, þ.e.a.s. ef þetta væri allt saman rétt, nákvæmlega hvernig bygging „Come Lay Low“ væri? Væri lagið risuleg blokk í Lundúnum? Tvílyft timburhús í Vesturbænum? Eða kannski stórbrotið snjóhús einhvers staðar á Grænlandi? Stórar spurningar, án efa. Að lokum komst undirritaður hins vegar að þeirri niðurstöðu að arkitektúr væri ekki viðeigandi myndlíking; ef undirritaður yrði að staðsetja lagið í tíma og rúmi þá væri lagið uppi áður en byggingarlistin var orðin að viðurkenndri list- eða fræðigrein (hvers vegna, veit hann ekki)—en dæmir hver fyrir sig … Hvað sem huglægum vangaveltum hégómlegra blaðamanna varðar, þá var hljómsveitin Hrím, eins og segir hér að ofan, að gefa út nýtt lag. Í tilefni útgáfunnar heyrði SKE í Ösp Eldjárn og spurði hana nánar út í tónlistina og tilveruna. Gjörið svo vel.

Viðtal: RTH
Viðmælandi: Ösp Eldjárn
Ljósmynd: Ethan Sheppard

SKE: Já góðan daginn, hvað segirðu gott?

Ösp Eldjárn: Jú, ég segi allt svona líka glimrandi gott. Það er sól, ég er með kaffibolla—lífið er gott.

SKE: Hljómsveitin Hrím samanstendur af ykkur Anil og Cherif, og var, okkur skilst, stofnuð árið 2013. Hvernig kom það til?

ÖE: Já, það stemmir. Ég og Anil hittumst þegar ég sótti um í kór sem hann rekur, sem kallast London Contemporary Voices. Ég komst sem betur fer inn. Í prufunni vaknaði áhugi Anils á að vinna með mér og ég var mjög svo til í að sjá hvert það leiddi. Í kjölfarið byrjuðum við að hittast og búa til músík. Okkar sérsvið eru lagasmíðar og útsetningar en okkur vantaði einhvern sem kunni meira inn á elektrónískan/rythmískan hljóðheim. Það var því snemma árs 2015 sem við svo lokkuðum félaga okkar Cherif til að vera með okkur í bandi og þannig varð Hrím til.

SKE: Hrím hefur gefið út tvö lög: Ástarnetið og Come Lay Low. Þetta eru bæði mjög stór og marglaga lög; orðið 'fyrirsjáanlegt' á engan veginn við. Þessi hljóðheimur Hrím, hvaðan kemur hann?

ÖE: Það er held ég þetta: Við erum öll með okkar sérsvið innan tónlistarinnar. Ég er með bakgrunn í þjóðlaga, djass og klassískum söng og sem mjög melódísk og melankólísk lög og texta. Anil er líka söngvari og lagasmiður auk þess að vera frábær útsetjari og hefur bæði útsett fyrir kóra sem og strengjasveitir. Cherif kemur svo út þessum raftónlistarheimi, modular synths og þvíumlíkt og vinnur sem upptökustjóri og pródúser. Settu þetta í einn pott og þá færðu hljóðheim Hrím.

SKE:Er plata, myndband, kassetta í vændum?

ÖE: Það er smáskífa á leiðinni. Við erum að vinna með að gefa út eitt lag á mánuði fram í nóvember en þá mun hún koma út í heild sinni. Það er ekki búið að taka okkur nema … fimm ár að koma þessum greyum út.

SKE: Hrím treður upp á Airwaves í nóvember. Ef þið yrðuð að selja tónleika ykkar á hátíðinni með örstuttri söluræðu (lyfturæðu), hvernig myndi sú ræða hljóma?

ÖE: Viltu hverfa um stund inn í seiðandi og magnþrunginn hliðarheim þar sem hið einlæga og berskjaldaða jafnt sem hið stóra og epíska ræður ríkjum? Komdu þá á tónleika með Hrím … eh?

SKE: Ef heimurinn væri að farast eftir tíu mínútur og þú værir föst, ein inni í gömlu útvarpshljóðveri, andspænis stórum svörtum hátölurum, tengdir við rándýrt hljóðkerfi, og þú gætir aðeins, á þessari hinstu stundu, spilað eitt lag: hvaða lag yrði fyrir valinu?

Ella Fitzgerald læknar allt. Og ég hugsa ég mundi vilja gleyma um stund að heimurinn væri að farast. Svo Betwitched, Bothered and Bewildered yrði held ég fyrir valinu. Það er líka mjög langt svo það væri ekki þessi óbærilega langa þögn eftir að laginu lyki og þangað til heimurinn myndi svo farast.

SKE: Werner Herzog sagði eitt sinn að það
væri vonlaust að verða alvöru listamaður
án þess að lesa, og lesa mikið. Hvaða
bók hefur haft mestu áhrif á þig?

ÖE: Þúsund bjartar sólir. Ég hef aldrei áður grátið með ekka yfir bók. En þessi bók braut mig.

SKE: Fegursta textabrot sögunnar er, að okkar
viti, finna í laginu Hallelujah eftir
Cohen:

„Maybe there's a God above

But all I ever learned from love

Was how to shoot somebody who outdrew ya“

Hvert er þitt uppáhalds textabrot?

ÖE: Það er náttúrulega ómöglegt fyrir þjóðlagasöngvara að velja eitt uppáhalds textabrot, þar sem textinn sjálfur er einna mikilvægastur. En eitt af mínum uppáhalds er eftir meistara Megas að sjálfsögðu …

“Það er magt sem angrar en ekki er það þó biðin

Því ég sé það fyrst á rykinu hve langur tími er liðinn

Og ég skrifa þar eitthvað með fingrinum sem skiptir öllu máli

Því nóttin mín er dimm og ein og dagurinn á báli”

SKE: Hvað ertu að hlusta á þessa dagana?

ÖE: Ég fór á tónleika í síðustu viku og uppgötvaði Krysle Warren, hún er rosaleg!

SKE: Eitthvað að lokum?

ÖE: Trítlið nú yfir á spotify og hlustið á lögin okkar. Mögulega fylgja okkur þar líka? Og takk fyrir mig!

(SKE þakkar Ösp Eldjárn kærlega fyrir spjallið og hvetur lesendur til að kynna sér tónlist Hríms betur. Hér fyrir neðan er svo lagið Ástarnetið, ásamt hlekkur á greinina eftir Arnaud Marty, sem vísað er í, í inngangi viðtalsins. )

Auglýsing

læk

Instagram