„Reykjavík er fokking næs“

Það viðurkennist að nokkra ýtni þurfti til þess að komast í samband við Loga Pedro Stefánsson tónlistarmann til að ræða við hann um daginn, veginn og listina. Ekki vegna þess þó að Logi sé ófús til viðræðu, nema síður sé, heldur af því að hann er óskaplega önnum kafinn. Sama dag og viðtalið var tekið frumsýndi hljómsveit Loga og Karinar Sveinsdóttur, Young Karin, myndband við lagið Sirens með tilheyrandi viðhöfn. Logi hljómaði enda dálítið þreyttur í símann. Kannski leiddist honum bara blaðamaður. Hvað um það þá vinnur hann um þessar mundir líka að nýrri tónlist með hinni hljómsveit sinni, Retro Stefson (nýtt lag er væntanlegt í mars), sækir áfanga til stúdentsprófs í Tækniskólanum, spilar reglulega á skemmtistöðum, gerði á síðasta ári sjónvarpsþætti í félagi við Unnstein bróður sinn og lauk í ofanálag hljóðtækninámi í desember síðastliðnum. Og ótalmargt fleira sem verður að listast annarsstaðar. Lái hver sem vill honum að geispa. Eftir dálítið þvaður um daginn og veginn innti ég Loga eftir því hvert hann leitaði eftir innblæstri til alls þessa:

Ég veit eiginlega ekki, svarar hann dálítið hugsi og heldur áfram: Þetta er orðið svo náttúrulegt einhvern veginn, það kemur bara. Ég graffaði mikið á sínum tíma og fékkst við hitt og þetta en hef núna bara fundið mig alveg í tónlistinni og er alveg fókuseraður á hana. Meðfram því að semja mína eigin tónlist er ég svo að dj-a reglulega, alltaf tvisvar í mánuði á Prikinu og svo víðar. Það hjálpar til við að semja, alveg pottþétt. Það hefur áhrif. Ég er búinn að spila síðan ég var krakki, byrjaði að dj-a á skólaböllum og færði mig svo yfir á klúbbana þegar ég varð átján. Er líka búinn að vera í Retro Stefson í næstum níu ár. Þannig helst það í hendur. Svo er maður að vinna í allsskonar verkefnum, misskemmtilegum, inn á milli. Þetta hefur einhvern veginn allt áhrif, þetta er bara það sem ég geri.

Ég graffaði mikið á sínum tíma og fékkst við hitt og þetta en hef núna bara fundið mig alveg í tónlistinni og er alveg fókuseraður á hana.

– Logi Pedró

Tónlistarfólk nefnir stundum landið sem áhrifavald, bæði landið sjálft, náttúruna, og svo samfélagið. Hvernig horfir slíkt við þér – fjöllin, jöklarnir, hafið og allt það?

Logi hugsar sig dálítið um og segir svo: Það hefur náttúrulega áhrif á þann hátt að maður verður hálf þunglyndur af því að búa hérna, í myrkrinu og kuldanum.Hann hlær. Það hefur þau áhrif á mann. En Highlands [fyrra nafn Young Karin, innsk. blm.] vísar auðvitað í náttúruna og við höfðum í huga vissa mystík sem henni fylgir. En hún hefur annars ekki bein áhrif á sköpunina. Ekki meðvitað. Öðru máli gegnir um samfélagið, segir hann: Reykjavík er fucking næs. Það er öflugt að búa í landi sem er ekki svo lítið að maður geti ekki lifað af því að gera tónlist en er þó svo smátt að það er frekar auðvelt að komast áfram ef þú hefur eitthvað fram að færa. Það er gott að fást við tónlist á Íslandi, styttra á milli listamannsins og áheyrenda en á mörgum stöðum.

Og listamanns og listamanns, eins og ykkar Karin. Þið kynntust með frekar þorpslegum hætti, þegar þú dæmdir í söngvakeppni í framhaldsskóla. Hvernig gengur það fyrir sig?

Já, hún er bara snillingur, eins og þú heyrir. Til að byrja með hef ég samið flest lögin og textana. Svo kemur Karin með frábæra punkta í stúdíóinu. Pælingin á n°1ep-inu var eiginlega að hún gæti þreifað fyrir sér, fundið sig. Hún var náttúrulega svo ung þegar hún kom inn í þetta, ég var bara að kynna hana fyrir þessu öllu saman. Hún bara hafði eitthvað svo spes við sig, framkomuna, sönginn, útlitið og allt saman.

Og nýja myndbandið, geturðu sagt mér lítillega frá því?

Það er við lagið Sirens og Magnús Leifsson, meistari, leikstýrir því. Við fengum lánaðar þessar vaxmyndir sem Þjóðminjasafnið á. Það var einhver útgerðarmaður[Óskar Halldórsson, innsk. blm.] sem gaf það á sínum tíma og það var til sýnis til ’69 minnir mig. Svo hefur það bara verið í geymslu. Við notuðum flestar stytturnar en sumar var ekki hægt að ná í. Til dæmis einu kvenstyttuna í safninu – já, það er ein kona í safninu.

Jæja, Karin virðist þó hafa karlpungana undir góðri stjórn í myndbandinu. Ég óska þeim Loga til hamingju með myndbandið, þakka honum fyrir samtalið og hlakka prívat og persónulega til að heyra meira frá honum, hvaða nafni sem verkefni hverrar stundar kann að nefnast.

Auglýsing

læk

Instagram