“Sannleikurinn er sá að ég mun örugglega aldrei jafna mig á neinu.”

Auglýsing

SKE Spjalllar við John Grant

John Grant er á góðum stað í lífinu. Honum hefur tekist
að þroskast; að koma sér fyrir; að lifa í nútíðinni. Hann
er hættur að drekka; hefur sagt skilið við kókaínið; og
síðastliðin tvö ár, verið í heilbrigðu langtímasambandi. Þar
að auki er hann tilbúinn með nýja plötu og er að undirbúa
sig fyrir útgáfu hennar. Á þessum tímapunkti í lífi Johns
hittumst við. Hann gengur inn í Iðnó, með stóískt yfirbragð.
Loðinn, pínu votur (það rignir) og heilsar mér innilega. Ég
er hins vegar eins og víraður úlfur, ruglaður eftir langan
dag á úlfaskrifstofunni. Ég er allur á iði. Andlega vogin, eins
og vegasalt, sliguð af holdugum táningi (öðrumegin). Við
spjöllum aðeins við konuna í afgreiðslunni og hún fylgir
okkur inn í skemmtilega gamaldags setustofu. Setustofan
er skreytt antíkhúsgögnum og gardínurnar eru allar að
fölna. John fyllist aðdáun og byrjar að taka myndir. Ég
dett næstum því um bólstraðan stólkoll #shoevitund. Við
ræðum plötuna, AA, Lars Lagerbäck og Reyjkavík.

John Grant: Ég elska gamla stóla, sérstaklega föla
græna stóla.

SKE: ‚Pale Green Ghosts,’ segi ég og vitna í aðra plötu
Johns.

Við tölum aðeins um ferð Johns til Parísar. Hann var þar í
tvo daga. Hann svaf illa og var mjög þreyttur allan daginn.
Hann var í stanslausum viðtölum. Svo er ég, taugastrekkti
lupus, að pína hann áfram.

SKE: Hvenær komstu til landsins?

Auglýsing

John Grant: Laugardagsmorgun.


SKE: Þannig að þér hefur gefist tími til að jafna þig?

John Grant: Ó já, en sannleikurinn er sá að ég mun
örugglega aldrei jafna mig á neinu.

John hlær.

SKE: Það kemst enginn
héðan á lífi.

John Grant: Rétt.

Við spjöllum aðeins um blaðið.
Konan í afgreiðslunni færir
okkur vatn.

John Grant: Takk kærlega fyrir (John segir á mjög góðri
íslensku. John talar fimm tungumál).

SKE: Nýasta platan þín ber titilinn ‚Grey Tickles, Black
Pressure‘. Hvaðan kemur þessi titill?

John Grant: ‚Grey Tickles‘ er beinþýtt úr íslensku: ‚Grái
fiðringurinn’. ‚Black Pressure’ kemur frá tyrkneska
orðinu ‚karabasan’ sem þýðir ‚martröð‘.

SKE: Hvaðan kom hugmyndin að setja þessi orð
saman?

John Grant: Þetta bara passaði. ‚Martröð‘ og ‚Grái
fiðringurinn‘ fara líka svo vel saman. Svo er þetta
ákveðinn húmor. Það eru allir að ganga í gegnum gráa
fiðringinn sama hversu gamlir þeir eru. Nýa platan
fjallar ekki um martaðarkenndan gráan fiðring, heldur
um sjónarmið. Hún fjallar um samhengi í þínu eigin lífi.
Þetta hefur verið sturlað ár. Það er eins og heimurinn
sé að fara til helvítis en það þýðir ekki að maður eigi að
gefast upp á sínu eigin lífi. Það þýðir ekki að þú eigir að
hætta að lifa. Jafnvel þótt að heimurinn myndi farast
eftir nokkra daga þá heldur maður áfram að lifa.

John hugsar sig aðeins um.

John Grant: Ég hef lifað mjög sjálfselsku lífi. Þegar
móðir mín dó var ég einfaldlega ekki á staðnum. Ég var
barn. Hún dó þegar ég var 26 ára. Ég hegðaði mér eins
og 12 ára krakki. Ég þroskaðist mjög seint. Ég þroskaðist
ekki fyrr en ég var kominn vel á fimmtugsaldurinn.

SKE: Þú hefur talað um það að allt sem þú gerir snúist
um það að sleppa tökunum – “to let go”. Hverju ertu
að sleppa tökunum af á þessari plötu?

John Grant: Reiði, hræðslu, stjórn. Maður verður fljótt
örvinda á því að halda að maður hafi stjórn á öllu. Að
reyna stjórna því hvernig fólk sér þig; að reyna stjórna
þínu nánasta umhverfi; að reyna stjórna þeim sem þú
elskar; að reyna stjórna sjálfum þér; að stjórna, og
afneita, eigin veruleika; þetta eru allt hlutir sem tákna
dauðann fyrir mér. Ef þú samþykkir ekki hlutina eins og
þeir eru þá kemstu ekki lífs af. Ekki til lengri tíma litið.
Þú neyðist til þess að flýja raunveruleikann. Þannig
hefur þetta verið fyrir mig. Nú er ég bara að hugsa
upphátt. En þannig horfir þetta við mér og þannig hefur
þetta verið fyrir mig. Stundum fær það, að vera edrú
og neyðast til þess að horfa á hlutina í réttu ljósi, mig til
þess að langa drekka aftur.

John hlær.

Konan í afgreiðslunni kveður. ‚Æðislegt‘ segir John. Ég fæ
mér kaffibolla. Svo átta ég mig á því, upphátt, að ég hafi
ekki drukkið einn einasta bolla í dag. Það er ekki líkt mér.
‚Hvað er að þér!?‘ spyr John.

SKE: Hvað hefurðu verið edrú lengi?

John Grant: 11 ár.

SKE: Ferðu á fundi?

John Grant: Já. Ég fór á fund í dag.

Hann spyr hvort að ég sé edrú eða hvort að ég eigi við
áfengisvanda að stríða. Ég segi ‚nei‘. Lupus-inn drekkur í
hófi.

John Grant: Þegar þú ert á fylliríi, þá áttar þú þig ekki á
skaðanum sem þú ert að valda. Þetta snýst allt saman
um þig sjálfan: ‚Ég er bara að vernda sjálfan mig. Ég er
að reyna lifa af.‘ En svo fer þetta að hellast yfir á aðra.
Þú eyðileggur svo margt útfrá þér. En þú sérð það ekki.

SKE: Á hvaða tímapunkti áttaðir þú þig á því að
þú hafðir gengið of langt – að þú yrðir að hætta að
drekka?

John Grant: Þegar ég varð edrú, þá fór ég á spítalann.
Ég ætlaði í meðferð. Mig langaði ekki í AA heldur
langaði mig í lyf sem myndu gera mig veikann ef ég
drykki. Ég sat í móttökunni og beið eftir svari við
meðferðarbeiðninni minni. Þann dag var verið að
bjóða fólki upp á kynskjúkdómapróf, án endurgjalds.
Ég hitti hjúkrunarkonu sem fór að forvitnast um útbrot
á handleggnum á mér: ‚Hvað er þetta?‘ spurði hún.
Ég sagðist ekki vita það. ‚Við þurfum að athuga hvort
að þú sért með sárasótt (sýfilis),‘ sagði hún. Svo kom
það á daginn – ég var með sárasótt. Einhverra hluta
vegna spurði ég hana hvort hún trúði á guð. Ég var
hálf viðkvæmur þennan dag, sjáðu til, af einhverjum
ástæðum. Ég var búinn að vera fullur svo lengi, mér leið
illa og nú var ég greindur með sárasótt. Hún sagði ‚jú,
ég trúi á guð.‘ Þessi kona kom mér í 12 sporin. Ég byrjaði
strax daginn eftir. Ég var edrú í tvo mánuði og svo fékk
ég mér kókaín.

John hlær.

John Grant: Eftir 60 daga. Ég þurfti að byrja aftur. Þetta
var í ágúst 2004. Ég hef ekki smakkað síðan.

SKE: Árið 2012 varstu greindur með HIV. Hvernig
hefur líf þitt breyst eftir þessa greiningu?

John Grant: Það er skrýtið að segja það en mér finnst það
hafa verið ágætis vakning fyrir mig. Ég átti í mjög
óeðlilegu sambandi við kynlíf. Mig langaði ekki til þess að
takast á við þennan vanda. Ég hætti að neyta áfengis
og kókaíns og mér fannst það alveg nóg. En þegar
þú ert í meðferð þá færðu ekki að velja og hafna. Þú
verður að reyna gera betur á öllum vígstöðum lífsins.
Ég er alltaf að reyna flýja raunveruleikann á hvaða
máta sem býðst. Á hverju augnabliki, hvers dags, er
líkaminn minn að reyna að flýja. Það er mjög sorglegt
að ég … hann hugsar sig um… hafi ekki áttað mig á því
hvað var að gerast varðandi kynlíf. Mig langaði bara í
venjulegt samband og venjulegt kynlíf. En ég var svo
sannfærður af öllum í kringum mig, þegar ég var yngri,
að ég væri veikur. Og að ég yrði aldrei hamingjusamur
nema að ég yrði einhver annar. Að ég gæti ekki verið í
sambandi með öðrum karlmanni þar sem að það færi
gegn lögmálum guðs, gegn því sem átti að
heita ‚náttúrulegt.‘

SKE: Það er skondið þetta orð, ‚náttúrulegt.‘

John Grant: Það sem ég mátti og mátti ekki
gera var svo innprentað í mig. Mér var sagt að
ég gæti ekki átt í sambandi og að ég væri ekki
velkominn. ‚Þú átt ekki heima í þessum heimi.‘
Það er engin ástæða fyrir þig að læra eitthvað
í þessum heimi því að þú ert ekki velkominn. Ég
lifði samkvæmt þessu. Ég hætti að þroskast.

Ég fer og opna fyrir Allan, ljósmyndara. Það er
eins og konan í afgreiðslunni hafi læst okkur inni.
Hurðin í herberginu er læst. En svo er önnur
hurð, í næsta herbergi, og ég kemst út.

SKE: Þú nefndir það í viðtali að á einhverjum
tímapunkti, þegar þú varst yngri, þá varstu
laminn. Þú reyndir ekki að berjast á móti
vegna þess að það var ekkert til þess að
berjast fyrir. Þér fannst það ekki þess virði
að standa upp fyrir sjálfum þér.

John Grant: Ég kom í veg fyrir það að
strákurinn barði mig. Ég var alltaf sterkur. En
mér var sagt svo oft að ég væri veikburða.
Þetta er eins og sagan af fílsunganum sem var
bundinn við stjakann. Svo þegar hann eldist
þá heldur hann sig við stjakann. Hann trúir því
ennþá að hann sé fastur. Þetta var svona fyrir
mig. Mér var alltaf sagt að ég væri veikburða
og ég væri ekki karlmaður. Mér var sagt þetta
heima í gegnum biblíuna og af heiminum. Ég
átti mér engan samastað. Ég var mjög reiður.
Þegar ég var laminn var ég þess fullviss að
foreldrar mínir myndu kenna mér um. ‚Hvernig
gastu látið þetta gerast?‘ Þetta myndi snúast
um mig. Ég hélt höndunum hans og hann gat
ekki slegið mig. Ég var sterkur. Þegar ég var
yngri trúði ég því virkilega að ég gæti ekki lyft
lóðum – það myndi ekki hafa sömu áhrif á mig.
Ég var óæðri manneskja. Þetta risti svo djúpt.

SKE: Þetta er verulega brenglað.

John Grant: Já, það er það. Stundum verð
ég þreyttur á því að velta mér upp úr þessu
í viðtölum. Fólk hugsar örugglega ‚þessi er
hress.‘ En í daglegu lífi þá er ég alltaf kátur. Ég
og vinir mínir hlæjum stöðugt. Ég tel mig vera
mjög hamingjusaman mann. Mér finnst bara
flestir forðast það að tala um hlutina.

John Grant talar um nýlega skotáras í
Bandaríkjunum. Ungur samkynhneigður maður
skaut tvo fréttamenn. Svo ræðum við Ísland.

John Grant: Ef hópur ungmenna gengur á
móti mér í Reykjavík þá verð ég smeykur. Ég
herpist saman og undirbý mig fyrir árás. Ég bíð
eftir því að vera kallaður ‚faggot‘. En þetta er
ekki hluti af mínum raunveruleika lengur. Ekki
þannig. Kannski hef ég lent í þessu og ekki
skilið það sem var verið að segja við mig.

SKE: Þér finnst þú vera öruggur á
Íslandi?

John Grant: Mér finnst ég vera öruggur
hér. Þó upplifi ég mig ekki öruggan eftir
miðnætti niðrí bæ.

SKE: Það eru örugglega fáir sem
upplifa sig örugga eftir miðnætti niðrí
bæ.

John Grant: Ég hef verið edrú niðrí bæ þegar
fullt fólk byrjar að atast í manni. Það er ekki góð
tilfinning. Að slást bara til þess að slást. Ofsinn sem
lifir innra með mér er gjörsamlega … hann hugsar
sig um
… og allt það sem ég hef látið sjálfan mig ganga
í gegnum og trúað um sjálfan mig, það verður að þessari
hræðilegu reiði, af því að þú leyfir fólki að meiða
þig. Svo segir fólk við þig ‚þú ert veikburða.‘ Svo
les ég fyrirsagnirnar í dag ‚Takk, Lars.‘ Ég pæli í því
hvernig það sé að vera fyrirmynd karlmennskunnar
og að uppskera þakklæti heillar þjóðar á forsíðu
morgunblaðanna. Að vera kjarni karlmennskunnar.
Að vera maðurinn sem leiddi íþróttalið til sigurs. Ég
horfi á þetta fólk með lotningu því að þetta er eins
nálægt og við komumst að ofurhetjum.

SKE: Eins og Gunnar Nelson.

John Grant: Já, hann líka. Ég hef æft í Mjölni. Ég hef
séð það sem gengur á þar. Það er sturlað. Hann er
tilkomumikið eintak, hann Gunnar. En þegar ég lendi
í útistöðum þá tek ég ofsann með mér, og það er
ógnvekjandi. Styrkur reiðinnar er ógnvekjandi. Ég
hræðist það að lenda í slag við einhvern. Mér hefur
ekki tekist að sleppa reiðinni. Sem betur fer geri ég
mér grein fyrir þessu, því að ég myndi örugglega
ganga of langt.

John segist vera sannfærður um að það, sem
kom fyrir þennan unga dreng sem banaði tveimur
fréttamönnum er, að hann hafi gert sér upp sögu í
huganum og að hann hafi misst sig. Hann hefur verið
sannfærður um það að hann hafi gert hið rétta.

SKE: Það eru allir hetjur í sínum eigin heimi.

John Grant: Vissulega. En þetta er sorglegt. Dauði
þeirra var tilgangslaus. Fólk segir að hann hafi verið
mjög veikur. Ég þekki það ekki. Það er mun fínni lína,
á milli andlegrar heilsu og vanheilsu, en við höldum.

SKE: Tíðni skotárása í Bandaríkjunum er ótrúleg.

John Grant: Og ofbeldið. Þegar þú ferð til
Bandaríkjanna þá verður þú að vera tilbúinn í að
fólki atist í þér (fu#% with you). Þannig er bara lífið
þarna. Fólk fer bara og atast í öðru fólki.

SKE: Og svo lögreglan að atast í borgurum
á löglegan hátt.

Svo tölum við aðeins um ástandið í Bandaríkjunum:
Ferguson, innbyggða fordóma. Ég minnist á dvöl mína á
Flórída og hvernig skilningur minn á Bandaríkjunum hafi
breyst eftir þennan tíma. John talar aðeins um lögregluna
og hvernig reiði og hræðsla hennar verður að mjög
hættulegum kokkteil.

SKE: Hvernig finnst þér að vera í sambandi með
tónlistarmanni?

John Grant: Það er fínt. Við erum ekkert að blanda
tónlistinni okkar saman. Við tölum ekki mikið um það.
Stundum líður mér eins og tónlistin mín sé ekki endilega
hans tebolli. Hann er gagnrýninn.

SKE: Það hlýtur að vera erfitt.

John Grant: Ég veit það ekki. Við tölum ekki mikið um
þetta. En það væri verra ef það væri öfugt – ef að hann
væri harður aðdáandi. Þetta hljómar eins og ég sé að
mála aðdáendur í neikvæðu ljósi en það er ekki þannig.
Þú vilt ekki endilega að makinn þinn sé aðdáandi. Ég
vil að hann virði það sem ég geri. Ég held að maður
gæti ekki verið með manneskju sem virðir ekki það sem
maður gerir. Ég veit það ekki. Ekki nema að kynlífið
væri svona frábært. En fyrir mér væri það merki um
ójafnvægi í sambandinu.

SKE: Það myndi sennilega ekki ganga til lengri tíma.
Virðing er undirstaðan að góðu sambandi.

John Grant: Hann virðir mig fullkomlega og ég ber
óendanlega mikla virðingu fyrir honum. Ég dái það sem
hann gerir og hann er óhræddur við gagnrýni. Hann
tekur henni fagnandi. Það er ástæðan fyrir því að ég
leyfi honum að gagnrýna mig. Svo segist John vera
svo sjálfsgagnrýnin að hann þurfi eiginlega ekki meiri
gagnrýni.

Hann hlær.

John Grant: En mér finnst ég vera heppinn. Ég
hef kynnst yndislegri mannveru. Samband okkar
er náttúrulegt og það ríkir mikil virðing á milli okkar.
Ég ætlast til þess að hann þoli ýmislegt af því að hann elskar
mig. Mér finnst það eðlilegt. En að halda að þú komist upp
með að öskra á einhvern og lítillækka vegna þess að þið
elskið hvorn annan er ekki rétt. Það er eitthvað sem ég hef
þurft að læra.

SKE: Þetta hefur breyst með þessu sambandi?

John Grant: Ekki með þessu sambandi heldur breyttist ég.

Hann hugsar sig um …

John Grant: Ég held að ég hafi þurft að læra
þetta áður en ég gat verið í sambandi. Ég hef
þurft að læra svo mikið. Síðasta skiptið sem ég
var í ástarsorg var erfitt. Það sem gerir ástarsorg
svona kvalarfulla er að hún varpar ljósi á þitt
raunverulega sjálf. Hvernig þú tekst á við þetta.
Ég tók þessu ekki vel. Ég var reiður og hegðaði mér illa.
Ég kenndi sjálfum mér um. Ég hugsaði, ‚þú hefur ekki
lært neitt.‘ Þess vegna var ég svona djúpt sokkinn í
örvæntingu, af því að ég var kominn á fimmtugsaldur:
‚hefurðu í alvörunni ekki lært neitt!?‘ ‚Hefurðu virkilega
ekki lært hvernig á að koma fram við aðrar manneskjur!?‘

SKE: Sjálfsímyndin brotnaði?

John Grant: Það fór allt til helvítis. Ég gat ekki snúið mér
til áfengis eða fíkniefna. Þannig að ég leitaði til kynlífs.
Þá smitaðist ég af HIV. Vegna þess að ég sneri baki við
vandanum. Ég lærði aldrei að vera í nánum tengslum við
aðra manneskju. Ég hugsaði bara ‚ef þú ert hrifinn af
einhverjum þá verður kynlífið gott og þá ríkir virðing á
milli ykkar og ég get sagt það sem ég vil,‘ en svo fékk ég
viðbjóðslega vakningu. En þetta gerði mér gott.

SKE: Það gleður mig að þú sért kominn á betri stað.

John Grant: Mér finnst ég vera heppinn. Mér finnst ég geta
sitið hér með þér og notið fegurðar þessa herbergis, notið
samræðanna og notið þessa fallega rigningardags
í Reykjavík.

Á þessum orðum bindum við enda á samtalið. Platan ‚Grey
Tickles, Black Pressure‘ kemur út í byrjun október. Einnig spilar
John með sinfóníuhljómsveit Íslands á Airwaves í vetur.

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Dásamlega gott keto kex

Langbesta keto kexið!

Instagram