Stretch and Bobbito snúa aftur – með nýtt hlaðvarp

Adrian Bartos og Robert Garcia er betur þekktir sem plötusnúðarnir Stretch and Bobbito. Á tíunda áratugnum stýrðu þeir félagar einum vinsælasta útvarpsþætti í sögu Hip-Hops: The Stretch Armstrong and Bobbito Show á útvarpsstöðinni WKCR í New York. 

Þátturinn var í loftinu frá árinu 1990 til 1998 og á þeim tíma voru margir goðsagnakenndir rapparar gestir þáttarins, þar á meðal Biggie Smalls, Nas, Eminem, Busta Rhymes, Jay-Z og Big L. Í október 2015 var heimildarmynd um þáttinn framleidd sem rataði meðal annars á Netflix. 

Nú hyggjast þessir frumkvöðlar snúa aftur til leiks með útgáfu nýs hlaðvarpsþátts en stikla úr væntalegum þætti var gefin út á Youtube í gær. Í stiklunni ræða meðlimir sveitarinnar Run the Jewels, þeir El-P og Killer Mike, mikilvægi upprunalega þáttarins:

„Fyrir okkur var það að vera gestur í þættinum ykkar það allra mikilvægasta. Hvað rapptónlist varðar, þá varstu ekki neitt fyrr en þú fékkst að koma í þáttinn.“

– El-P

Hlaðvarpið verður aðgengilegt í gegnum NPR og ætla þeir félagar ekki einvörðungu að ræða rapptónlist heldur einnig list, pólitík, íþróttir og fleira. Enn á eftir að tilkynna hvenær fyrsti þátturinn fer í loftið en líklegt er að það sé ekki langt í það.

Hér fyrir neðan má svo hlýða á eitt goðsagnakenndasta „freestyle“ í sögu rapps: Big L og Jay-Z að rappa í The Stretch Armstrong and Bobbito Show snemma á níunda áratugnum; eru flestir á því að hinn fyrrnefndi gefi herra Carter ekkert eftir.

Auglýsing

læk

Instagram