Facebook bannar Reykjavík Grapevine

Uppfært: Eftir kvartanir frá lesendum hefur Facebook opnað aftur fyrir Reykjavík Grapevine á Facebook. Allir tenglar frá Grapevine.is voru á tímabili bannaðir á Facebook, ekki aðeins þeir sem ritstjórnin birti á Facebook-síðu tímaritsins.

Facebook hefur bannað tímaritinu Reykjavík Grapevine að birta fréttir á Facebook-síðu sinni, sem fleiri en 40.000 manns hafa líkað við. Grapevine reiðir sig á samfélagsmiðilinn til að koma fréttum á framfæri og ritstjórinn segir að valdið sem Facebook hefur hrollvekjandi.

Sjá einnig: Ísland er ekki til á Twitter

„Til að gera langa sögu stutta, þá hefur Facebook komist að því að Grapevine.is sé óörugg,“ segir Haukur S. Magnússon, ritstjóri Grapevine, í frétt á vef Grapevine.

Hann segir hrollvekjandi hversu mikið vald Facebook hefur yfir fjölmiðlum sem reiða sig í sífellt meira mæli á samfélagsmiðilinn til að koma fréttum á framfæri.

Ef Facebook finnst að þú þurfir ekki að sjá eitthvað, þá er það ekki til. Ef Facebook kann ekki við þig af einhverri ástæðu, þá ert þú ekki til.

Facebook byrjaði á því að fjarlægja færslu um brjóstabyltinguna, sem innihélt frétt með myndum af berbrjósta konum sem tóku þátt í átakinu á Twitter. Fréttin fór víða og var dreift af rúmlega 4.200 manns.

Ritstjórn Grapevine tók svo eftir því að færslur höfðu verið fjarlægðar af Facebook-síðu blaðsins. Myndir og stöðuuppfærslur voru á sínum stað en ekkert sem tengdi við vef blaðsins, Grapevine.is.

Þau komust svo að því að Facebook hafði ritskoðað síðuna og komist að þeirri niðurstöðu að hún væri óörugg fyrir notendur samfélagsmiðilsins. Ritstjórn Grapevine reyndi að birta fréttir sem innihéldu engin brjóst án árangurs.

Það var sama um hvað fréttin fjallaði, hvort sem það var umfjöllun um heilbrigðiskerfið á Íslandi eða sagan af henni Pippu, sem átti þann draum heitastan að hitta strákana í Sigur Rós, engin færsla var birt á Facebook-síðunni.

Haukur hvetur fólk til að koma kvörtunum áleiðis til Facebook og fylgja Grapevine á Twitter.

Auglýsing

læk

Instagram