Grétu á tónleikum Radiohead í Laugardalshöll

Hljómsveitin Radiohead kom fram í Laugardalshöll á tónlistarhátíðinni Secret Solstice í kvöld. Óhætt er að segja að hljómsveitin hafi tryllt gesti hátíðarinnar sem fengu hreinlega ekki nóg og klöppuðu Thom Yorke og félaga upp fjórum sinnum.

Sjáðu Radiohead flytja Creep í Laugardalshöll hér fyrir neðan.

Spennan fyrir tónleikunum var augljóslega gríðarleg þar sem röð tók að myndast fyrir utan Laugardalshöll fyrir klukkan 17 í gær en hljómsveitin steig ekki á svið fyrr en klukkan 21.30.

Radiohead spilaði í tvo klukkutíma og 20 mínútur og tók mörg af sínum þekktari lögum í bland við lög af nýju plötunni A Moon Shaped Pool og fleiri lög sem hörðustu aðdáendur hljómsveitarinnar þekkja mögulega betur en aðrir.

Það ætlaði allt um koll að keyra þegar lög eins og No Surprises, Reckoner og Paranoid Android fengu að hljóma. Þakið fauk svo endalega af Höllinni þegar hljómsveitin flutti Karma Police og Creep.

Þar með fékk að minnsta kosti einn tónleikagestur ósk sína uppfyllta en hann mætti með risavaxið pappaspjald sem á stóð: „Play Creep Please“ og veifaði því framan í hljómsveitina.

Tónleikagestir tóku vel undir í þekktustu lögunum og eftir langa tónleika voru þeir ekki búnir að fá nóg og heimtuðu meira. Thom Yorke þakkaði fyrir sig á íslensku og sagði frábært að fá loksins tækifæri til að koma fram á Íslandi.

Miðað við þessi tíst hér fyrir neðan er ljóst að einhverjir tónleikagestir áttu erfitt með að halda aftur að tilfinningum sínum og grétu á meðan tónleikarnir stóðu yfir.

https://twitter.com/arnorb/status/743969861416673280

Radiohead flytur Creep

https://www.youtube.com/watch?v=lHmJ0o9Z8Bo

Auglýsing

læk

Instagram