6 ára gamall með ölvuðum föður sínum og fólk hló að þeim:,,Kom illa nestaður úr æskunni“

Auglýsing

Gunnar Smári Egilsson er nýjasti gesturinn í Podcasti Sölva Tryggvasonar. 

Gunnar Smári, sem er þrautreyndur blaðamaður, útgefandi og ritstjóri, lýsir því í þættinum hvernig hann kom illa nestaður út úr æskunni.

,,Ég er alinn upp við fátækt, en líka alkóhólisma föður míns og ég er meira brenndur af því heldur en fátæktinni. Eins og mörg börn sem alast upp í fátækt, áttar maður sig ekki á því hvað maður er fátækur. Ég man eftir skömm yfir því að eiga ekki ný föt og vera í bættum fötum af bræðrum mínum, í skóm með götum og að vera alltaf votur í fæturna. Ég kem út úr æskunni illa nestaður og með mikla skömm yfir bæði fátæktinni og sjúkdómi föður míns. En mér finnst það vera meira tengt alkóhólismanum af því að ég var oft með föður mínum þegar hann var drukkinn og hefðu þurft að fá aðstoð, en fékk bara hlátur og fleira þess háttar. Ég man eftir senum þar sem hann lá í jörðinni og fólk gekk bara yfir hann og hló og ég hef örugglega þróað með mér ótta við múginn út frá þessum atvikum. Hann sótti okkur edrú en svo bara datt hann í það og ég man eftir furðulegum senum, í bíói, Viðeyjarferjunni og tjaldi á Laugavatni. Ég held að ef fólk sæi 6-7 ára gamalt barn í þessum aðstæðum með foreldri sínu í dag myndi það koma og hjálpa. En á þessum tíma var þetta bara eins og heimilisofbeldi og fleira, þetta var bara einkamál.“

Gunnar Smári hefur gert gífurlega margt á fjölmiðlaferlinum. Eitt af því áhugaverðara var messugagnrýni sem hann hélt úti á RÚV.

Auglýsing

,,Ég var með messugagnrýni á RÁS 1, þegar Ævar var að byrja með Víðsjá. Þá fór ég í kirkju á sunnudögum og kom með gagnrýni á mánudögum. Maður fór í kirkjuna og ég fjallaði um bygginguna og innréttinguna og svo var sungið og presturinn hélt ræðu og ég kom með gagnrýni á það líka. Mér fannst þetta gaman en messurnar fengu misjafna dóma. Ég held að ég hafi ekki fjallað jafnvel um neina predikun eins og þá sem ég fór á í Fíladelfíu-söfnuðinum. Mér fannst það snilldarlega framsett og efnið mjög ágengt um hlutverk þess sem er að leiða söfnuðinn og mér fannst þetta tilvistarlegt meistaraverk. Svo voru viðlög í þessu og þetta var frábærlega framsett og stórkostlegur ,,performans“. Svo fór ég í bílskúr við Snorrabraut þar sem var maður sem hafði verið afleysingarprestur á Seltjarnarnesi. Hann talaði yfir söfnuðinum á Nesinu og sagði að líklega myndi meirihlutinn af þessu fólki fara til helvítis! Þannig að hann var látinn fara og stofnaði lítinn söfnuð og var með messur í bílskúr og ég var sá fimmti sem sat og hlustaði. Hann braut rúnstykki og gaf fólkinu. Líkami krists var rúnstykki úr Björnsbakaríi. Það sem ég lærði á þessu verkefni var að kirkjan er yfirleitt alltaf opin fyrir fólk sem er ekki velkomið annars staðar og passar hvergi inn.“ 

Gunnar Smári segir að fjölmiðlaumhverfi Íslands hafi á vissan hátt breyst í valdatíð Davíðs Oddssonar.

,,Davíð Oddsson upplifði að allt fjölmiðlaumhverfi landsins væri á móti honum, eins og Donald Trump….þeir byrja að koma sínu fólki inn í Ríkisútvarpið og frá 1991 hafa allir útvarpsstjórar farið þangað inn með samþykki Sjálfstæðisflokksins. Hannes Hólmsteinn sagði mér það og hreykti sér af því í kringum aldamótin að það hefði aldrei verið ráðinn maður inn á Ríkisútvarpið án þess að hann hefði blessað það. Þeir ætluðu ekki að lenda í því að þarna væru einhverjir kommúnistar. Svo var eitt trixið að sameina fréttastofur útvarpsins, sem var alltaf pínulítið til vinstri og fréttastofu sjónvarpsins.“

Í þættinum ræða Sölvi og Gunnar um feril Gunnars Smára, íslenska fjölmiðla í gegnum tíðina, samfélagsgerðina, fátækt á Íslandi og margt fleira.

Þáttinn í heild má sjá hér að neðan:

Auglýsing

læk

Ummmmm...

Instagram