today-is-a-good-day

Ákvarðanir um orkuframleiðslu taki mið af loftslagsmarkmiðum Íslands

Loftslagsmarkmið Íslands þurfa að móta í ríkari mæli ákvarðanir um orkuframleiðslu og orkuflutning hér á landi en hvoru tveggja er grundvöllur fyrir orkuskipti í samfélaginu og frekari vöxt atvinnuvega. Orkuöryggi kallar á aukna raforkuframleiðslu og öflugra flutnings- og dreifikerfi sem aftur kallar á heildrænt skipulag orkukerfisins og samþættingu verkferla.

Þetta eru meðal niðurstaðna skýrslu starfshóps sem Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra skipaði í byrjun ársins til að fara yfir stöðu og áskoranir Íslands í orkumálum í ljósi markmiða stjórnvalda í loftslagsmálum.

Í skýrslunni eru settar fram sex sviðsmyndir um raforkuþörf landsins til næstu tveggja til fjögurra áratuga, þar af fjórar sem taka mið af loftslagsmarkmiðum Íslands. Sviðsmyndirnar spanna allt frá lítilli sem engri viðbót við raforkuframleiðslu Íslands til ríflega tvöföldunar hennar eða 124% aukningar fram til ársins 2040. Horft er til þess að orkuþörf vegna fullra orkuskipta verði mætt með aukinni orkunýtni og orkusparnaði fyrir tilstilli nýrrar tækni og með því að auka afl núverandi virkjana auk nýrra virkjana.

Í skýrslunni kemur fram að fjárfestingar í orkuframkvæmdum hafi hingað til ekki fylgt eftir markmiðum í loftslagsmálum, því ekki hafi verið metið nægjanlega hvað markmiðin fela í sér og hvaða viðbragða sé þörf í því sambandi. Vinna þurfi að sem mestri samfélagssátt um vernd og nýtingu landsvæða og náttúruauðlinda. Um allan heim hafi aðgerðir í loftslagsmálum framkallað græna iðnbyltingu.

Fram kemur að auka þurfi skilvirkni undirbúnings- og leyfisveitingaferla en sjónarmið hafi komið fram um að flókið regluverk og tímafrekt leyfisveitingaferli tefji uppbyggingu í orkukerfinu sem aftur hefti tækifæri til atvinnuuppbyggingar í landinu. Einnig þurfi að styrkja viðkomandi stofnanir þannig að fjárfestingar og verndarsjónarmið nái fram að ganga.

Ákall sé úr öllum landshlutum eftir aukinni orku og bættu orkuöryggi. Líklegir kaupendur orku hér á landi í framtíðinni eru fjölbreyttur iðnaður, m.a. málmiðjuver, gagnaver, líftækniiðnaður, matvælaframleiðendur, fiskeldisfyrirtæki og framleiðendur rafeldsneytis.

Mikilvægt sé að efla Orkusjóð, auka rannsóknir á innlendum orkutækifærum og leita eftir víðtæku samstarfi við erlendar stofnanir og fyrirtæki til þess að þróa og innleiða tæknilausnir. Loks þurfi að huga að því að aðgerðir í orku- og loftslagsmálum leiði til raunverulegs samdráttar innanlands og leiði ekki til aukinnar losunar annars staðar.

Skýrslan sýnir að valkostirnir sem við stöndum frammi fyrir spanna breitt bil. Allt frá því að  tryggja áframhaldandi hagvöxt og bætt lífskjör til þess að  slá af, horfa inn á við, draga saman orkusækna atvinnustarfsemi og líta til annarra verðmæta. Hvar við ákveðum að stíga niður fæti á þessu bili er risastór ákvörðun. Það hafa allir á þessu skoðun og því mikilvægt að þing og þjóð kynni sér málin vel, segir Guðlaugur Þór Þórðarson, umhverfis-, orku og loftslagsráðherra.

„Skýrslan er vönduð, hlutlæg, yfirgripsmikil og upplýsandi og ég vona að sem allra flestir kynni sér hana. Hún er gott tæki til að taka upplýsta umræðu um mál sem varða okkur öll og við verðum að ná árangri í. Markmið okkar í loftlagsmálum eru metnaðarfull og krefjandi en ávinningurinn er ótvíræður og mun nýtast okkur og komandi kynslóðum um ókomna tíð.“

Starfshópinn skipuðu Vilhjálmur Egilsson, hagfræðingur sem var formaður, Ari Trausti Guðmundsson jarðeðlisfræðingur og Sigríður Mogensen, sviðsstjóri hjá Samtökum iðnaðarins auk þess sem Erla Sigríður Gestsdóttir, sérfræðingur og Magnús Dige Baldursson, lögfræðingur frá umhverfis-, orku- og loftslagsráðuneytinu störfuðu með starfshópnum. Þá var haft samráð og sjónarmiða aflað meðal haghafa.

Auglýsing

læk

Instagram