BYKO býður starfsfólki út á land

BYKO hefur ákveðið að gefa öllum starfsmönnum sínum eða um 450 manns gjafabréf á gististöðum um allt land í gegnum styrkjumisland.is.

 ,,Okkur fannst þetta frábært tækifæri til þess að gera vel við starfsfólkið okkar og á sama tíma styrkja innviði íslenskrar ferðaþjónustu,“ að sögn Sigurðar B. Pálssonar, forstjóra BYKO.

,,Álagið undanfarið hefur verið mikið á starfsfólk og á sama tíma hefur verið erfitt tímabil hjá mörgum. Ferðaþjónustuaðilar um land allt eru í viðskiptum hjá okkur þannig að við viljum bæði hvetja starfsfólkið okkar til að ferðast innanlands og styðja við bakið á okkar viðskiptavinum í leiðinni eins og kostur er.“

 Styrkjumisland.is er góðgerðaverkefni frá hugbúnaðarfyrirtækinu Godo sem miðar af því að styrkja innviði ferðaþjónustu og veita Íslendingum tækifæri til þess að ferðast á góðu verði innanlands á næstkomandi misserum. Hótel og gististaðir um allt land taka þátt í verkefninu með því að bjóða að lágmarki gistingu í eina nótt en víða er boðið upp á morgunmat eða jafnvel önnur fríðindi með gjafabréfinu.

,,Það hefur orðið alger tekjubrestur í greininni og margar fjölskyldur sem hafa staðið vaktina og lagt allt sitt í uppbyggingu á gríðarlega flottri ferðaþjónustu á Íslandi hafa horft á eftir  lifibrauði sínu hverfa nánast yfir nóttu. Á síðasta áratug hefur verið gríðarleg flott uppbygging í ferðaþjónustu á Íslandi og það er erfitt að sitja aðgerðalaus á meðan þetta tímabil gengur yfir. Godo heldur utan um bókanir flestra gististaða og hótela á Íslandi og það var strax ljóst þegar faraldurinn byrjaði að tölurnar voru sláandi. Þess vegna ákváðum við að gefa hluta af vinnunni okkar til að hjálpa okkar viðskiptavinum frekar en að sitja aðgerðalaus,“ segir Katrín Magnúsdóttir rekstrarstjóri Godo. 

Auglýsing

læk

Instagram