today-is-a-good-day

„Ég er nú yfirleitt aldrei með neitt alveg á hreinu“ 

Viktoría Hermannsdóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV, lýsir sér sem margra barna móður í Vesturbænum sem á rætur að rekja úr Breiðholti. Hún segir jólavenjur fjölskyldunnar nokkuð hefbundnar og stefnir á að eiga framkvæmdalaus jól í ár umvafin fjölskyldu og vinum. Það er búið að vera í nógu að snúast hjá Viktoríu en hún er einn af framleiðendum heimildarmyndarinnar Velkominn Árni sem var frumsýnd nýverið við mikið lof. Hún lætur jólastressið ekki bera sig ofurliði og reynir alla jafna að hafa gaman að hlutunum, annars væri lífið ansi litlaust að hennar sögn. 

Eftirfarandi grein er endurbirt með leyfi frá Húsum og híbýli.

Ertu mikið jólabarn? „Svona bæði og. Mér finnst aðventan og jólin notalegur tími en á hverju ári bölva ég stressinu og lofa sjálfri mér því að fara í gott frí til útlanda næstu jól. Það hefur hins vegar ekki enn orðið að því. Ég er mjög spennt núna því við höldum jólin í fyrsta sinn í nýja húsinu okkar og svo verður heimildamyndin Velkominn Árni sýnd á RÚV um jólin þannig það geta allir byrjað að hlakka til.“

Hvenær dregur þú fyrsta jólaskrautið fram og hvernig skreytir þú fyrir jólin? „Það er nú allur gangur á því. Ég skreyti ekki mikið fyrir jólin en mér finnst gaman að gera kósí með kertaljósum og smáskrauti. Sóli maðurinn minn er framkvæmdaóður og hefur síðustu jól alltaf fengið þær frábæru hugmyndir að fara í einhverja risaframkvæmd í byrjun desember sem hefur valdið því að síðustu ár hefur eiginlega allt verið í rúst á jólunum. Þannig það hefur ekki verið mikið skreytt en það stendur til bóta í ár.“

Hvað kemur þér í jólaskap? „Jólasnjór og jólaljós í skammdeginu.“

Áttu þér eftirlætisjólalag?Jólakveðja Prinsins er í uppáhaldi og Það snjóar með Sigurði Guðmundssyni.“

Ertu ein af þeim sem bakar nokkrar sortir fyrir jólin? „Alveg alls ekki. En ég elska fólk sem gerir það og býður mér í heimsókn.“

Hvernig jólatré ertu með? „Lifandi jólatré sem við höfum keypt síðustu ár í jólatréssölunni hjá Landakoti. Það er svo skemmtilegt að fara og velja tré. Það er líka fátt jólalegra en lyktin af því.“

Hvað gerir þú á aðventunni? „Ég er aðallega að redda einhverjum gjöfum, gera eitthvað skemmtilegt með fjölskyldu og vinum og bara hafa gaman að þessu.“

Hvernig bækur lest þú um jólin? „Það sem kemur upp úr jólapökkunum hverju sinni. Ég er yfirleitt búin að tryggja að einhver gefi mér bók af því það er svo leiðinlegt að fá enga bók í jólagjöf.“

Hverjar eru jólahefðir fjölskyldunnar? „Við erum nokkuð hefðbundin þegar kemur að jólavenjum. Bara hringja inn jólin klukkan 18 og krakkarnir fá að opna einn pakka fyrir mat.“

Hvernig myndirðu lýsa aðfangadegi fjölskyldunnar? „Hann er yfirleitt þannig að sama hversu skipulögð ég ætla mér að vera þá átta ég mig á því á aðfangadagsmorgni að það vantar einhverja gjöf sem ég þarf að redda eða eitthvað sem gleymdist að kaupa í matinn. Síðan er það bara að koma gjöfum á fólk og taka á móti. Sóli minn sér um að elda matinn svo allir eigi gleðileg jól og ég græja flest allt annað. Svo bara höldum við gleðileg jól.“

Geturðu sagt frá eftirminnilegum atburði sem gerðist á jólunum? „Þegar ég var 17 ára og nýflutt að heiman fékk ég þrjú eldföst mót í jólagjöf. Mér fannst þetta vera hræðilegustu gjafir í heimi á þessum aldri og áttaði mig á því að líklega hefði ég flutt of snemma að heiman.“

Hvað er í jólamatinn? „Við erum með humar í forrétt en aðalrétturinn er breytilegur hverju sinni. Þegar ég var lítil var alltaf hamborgarhryggur en það hefur verið alls konar undanfarin ár. Í eftirétt þarf Sóli alltaf að fá rétt sem tengdamóðir mín býr til og er kallaður Laugardalshöllin og er held ég ananasfrómas. Ég er svo mikill gikkur að ég held mig bara við ísinn.“

Ef þú mættir óska þér hvers sem er í jólagjöf hvað myndi það vera? „Ég elska að fá góða bók, kósísokka, náttföt eða súkkulaði – og auðvitað myndi ég vilja heimsfrið.“

Hvaða hluti af jólahaldinu er í mestu uppáhaldi hjá þér? „Það er eftir að ég eignaðist börn, að fylgjast með þeim opna sínar gjafir og hvað þeim finnst gaman að þessu öllu saman.“

Strengir þú áramótaheit? „Já, ég geri það stundum en ég er pottþétt búin að gleyma þeim 2. janúar.“

Eftirminnilegasta jólagjöfin? „Amma mín og afi voru svo mikil krútt og gáfu okkur systkinum alltaf gjafabréf í Kringluna á hverju ári þannig að gjöfin kom ekki mikið á óvart. Eitt árið hins vegar var mjúkur pakki frá þeim sem kom mér svolítið á óvart. Þegar ég byrjaði að opna pakkann sá ég úr fjarska glott færast yfir ömmu og afa, síðan opnaði ég pakkann og úr kom einhver köflótt dragt, ég var svona 10 ára. Þegar ég var búin að taka upp pakkann þá sprungu þau úr hlátri yfir þessu uppátæki sínu og réttu mér svo annan pakka með gjafabréfi í. Þá höfðu þau pakkað inn einhverjum fötum af ömmu og ætluðu að láta eins og það væri gjöfin. Ég fæ alltaf hlýtt í hjartað og brosi út í annað þegar ég hugsa um þau að veltast um af hlátri yfir þessu prakkarastriki sínu. Síðan þykir mér líka ótrúlega vænt um jólagjöfina sem Birta dóttir mín gaf mér í fyrra. Þá fór hún og eyddi öllum peningunum sínum í bók um Spænsku veikina sem hún hafði heyrt mig tala um að mig langaði í. Það var mjög krúttlegt.“

Ef þú myndir vera erlendis yfir jólin, hvaða land yrði fyrir valinu? „Ég myndi vilja vera bara í fríi einhvers staðar í sólinni, hvaða sólríka landi sem er.“

Ert þú manneskjan sem ert með allt á hreinu fyrir jólin? „Nei, ég er nú yfirleitt aldrei með neitt alveg á hreinu enda væri það nú frekar litlaust líf. Þannig að yfirleitt er ég að redda hlutunum korter í jól. Jafnvel þó ég reyni að vera skipulögð. Ég stefni þó að því einn daginn að græja allt í byrjun desember.“

 

Umsjón/ María Erla Kjartansdóttir
Mynd/ Anna Kristín Scheving

Auglýsing

læk

Instagram