today-is-a-good-day

„Ég höndlaði þetta ekki nægilega vel og á tíma var ég með átröskun“

Leikkonan og fyrrverandi sundkonan Ragnheiður Ragnarsdóttir er gestur vikunnar í Einkalífinu á Vísi

Landsmenn þekkja hana líklega best sem afrekskonu í sundi og hefur hún farið á tvenna Ólympíuleika. Hún söðlaði algjörlega um fyrir nokkrum árum og flutti til Bandaríkjanna í leiklistarnám. Eftir útskriftina landaði hún hlutverki í Vikings, heimsfrægum sjónvarpsþáttum sem slegið hafa í gegn.

Síðustu ár hefur hún einnig sinnt fyrirsætustörfum og segir hún mikla útlitspressu fylgja bæði sundinu og fyrirsætubransanum. Hún lenti á tímabili í vandræðum með það.

„Þetta er því miður vandamál sem er ekki bara hjá leikkonum, fyrirsætum, íþróttamönnum, heldur bara hjá konum. Að finna fyrir þessari pressu að vera í ákveðnu formi eða líta út svona eða hinsegin. Átraskanir eru því miður algengari heldur en maður vill að þær séu,“ segir Ragnheiður.

„Ég höndlaði þetta ekki nægilega vel og á tíma var ég með átröskun. Þú ert með þjálfara, umboðsmenn og hina og þessa að segja manni að gera ekki hlutina svona og maður fer í einhvern graut inni í sér. Ég fór í afmæli og langaði að fá mér köku og þá fer maður í samviskubitið og borðar ekki neitt í tvo daga. Maður fer í búlimíu, anorexíu eða hvað það er,“ segir Ragnheiður en á tíma kastaði hún upp matnum rétt eftir að hafa fengið sér að borða.

Í viðtalinu fer hún yfir sundferilinn, leiklistina, Hollywood, Ólympíuleikana og þegar hún kynntist Kobe Bryant, fyrirsætuferilinn, tónlistina og margt fleira.

Viðtalið má sjá hér fyrir neðan.

Auglýsing

læk

Instagram