Tíu frábær blótsyrði sem forða þér frá fokkinu

Allir foreldrar þurfa að blóta öðru hverju. Það er reyndar leitun að svo stóískum fullorðnum einstaklingi að viðkomandi bölvi ekki t.d. þegar hann fær ósanngjarna stöðumælasekt eða rekur vitlausabeinið í.

En blót er ekki sama og blót og sumt ætti aldrei að heyrast í kringum sakleysingjana. Þau eru jú forrituð til þess að apa allt upp eftir okkur, fyrirmyndum þeirra.

Almenna reglan er að ef þú missir eitthvað ósæmilegt út úr þér fyrir framan barnið þá man barnið það sem þú sagðir og mun endurtaka það hástöfum á viðkvæmu augnabliki fyrir framan foreldra maka þíns.

Það gæti jafnvel skilist sem: Samfarir, samfarir, samfarir, móðurriðils-skíta-helvíti ef viðkomandi er sæmilegur í ensku.

Svo hér er listi yfir heppileg fúkyrði sem særa síður viðkvæm eyru smáfólksins.

1. Jedúddamía!

Dæmi: Jedúddamía, ég steingleymdi að skila inn skattskýrslunni.

2. Allamalla! eða jafnvel allamallamó!

Dæmi: Allamallamó, það eru tvö barnaafmæli um helgina.

3. Rækallinn sjálfur!

Dæmi: Bensínverðið var að hækka, rækallinn sjálfur.

Angry-Woman-GIF

4. Bólfótans!

Dæmi: Ái, ég rak tána í bólfótans borðfótinn.

5. Fjárans vesenisvesen!

Dæmi: Það eru bara til vinstri vettlingar á heimilinu núna, fjárans vesenisvesen.

best-angry-gif

6. Satan á sokkabuxum!

Dæmi: Satan á sokkabuxum! Hann svínaði fyrir mig þessi.

7. Arg!

Dæmi: Arg, þú gubbaðir yfir mig … Takk fyrir það elskan mín.

giphy

8. Horngrýtis!

Dæmi: Horngrýtis ríkisstjórnin / stjórnarandstaðan (eftir smekk og vindum).

9. Obbossí!

Dæmi: Obbossí, þetta var síminn hennar mömmu þinnar sem þú misstir í klósettið.

tumblr_inline_n0ea3lrPjr1rhignx

10. Amen-kúmen-rassmen-hálsmen

Dæmi: Amen-kúmen-rassmen-hálsmen, Amen-kúmen-rassmen-hálsmen-Frozen.

Það er ekki gott að blóta inn í sig, heppilegra er að bauna formælingum frá sér eins hæversklega og kostur er. Rannsóknir sýna að fólk virðist þola sársauka betur ef það fær að blóta á meðan það upplifir hann.

Uppeldi gæti stundum talist afbrigði af langvarandi sársauka svo láttu bara vaða þegar þú þarft.

Nútíminn foreldrar er ný og skemmtileg síða helguð þessu risavaxna hlutverki. Lækaðu okkur á Facebook og þú missir ekki af neinu.

Auglýsing

læk

Instagram