Framfarasjóður SI úthlutar styrkjum

Framfarasjóður Samtaka iðnaðarins hefur veitt fjórum verkefnum styrki samtals að upphæð 8 milljónir króna. Við val á verkefnunum er horft til þess að þau efli menntun í iðn-, verk- og tækninámi, að um sé að ræða nýsköpun sem styrki framþróun í iðnaði og að þau leiði til framleiðniaukningar. Með vali á þessum fjórum verkefnum sem hljóta styrki endurspeglast áherslur Samtaka iðnaðarins. Sjóðurinn var stofnaður árið 2016 í þeim tilgangi að skapa farveg sem styður við og þróar framfaramál tengd iðnaði. Sjóðnum bárust átta umsóknir að þessu sinni.

Verkefnin fjögur sem hljóta styrki úr Framfarasjóði SI eru:

Málarameistarafélagið hlýtur 1.000.000 króna styrk til þess að þýða, prenta og dreifa kynningarbæklingi sem á að tryggja að allir verkkaupar taki út vinnubrögð málara eftir samræmdum viðmiðunum.

 Eiríkur Ástvald Magnússon og Sylgja Dögg Sigurjónsdóttir hljóta 2.000.000 króna styrk til að greina stöðu námsgagna og kennslu varðandi rakaöryggi bygginga og greina þarfir á gerð uppfærðra námsgagna á þessu sviði fyrir íslenskar aðstæður.

 Qair Iceland hlýtur 2.500.000 króna styrk til rannsókna á laga- og reglugerðarumhverfi á Íslandi fyrir vetnis- og rafeldsneytisframleiðslu.

 Starfsgreinahópur fyrirtækja í prentiðnaði innan Samtaka iðnaðarins hlýtur 2.500.000 króna styrk vegna fræðsluátaks um sjálfbærni pappírs- og prentiðnaðar. Fræðsluátakið er unnið í samstarfi við evrópsku samtökin Two sides og íslenska skógfræðinga.

Auglýsing

læk

Instagram