Friðlýsing Kerlingarfjalla undirrituð

,,Í dag var undirrituð friðlýsing Kerlingarfjalla og nærliggjandi svæða sem landslagsverndarsvæði, alls um 344 km2. Friðlýsingunni var fagnað við hálendismiðstöðina í Ásgarði í Kerlingarfjöllum, að viðstöddum fulltrúum sveitarfélaga á svæðinu, Vina Kerlingarfjalla, Fannborgar, Umhverfisstofnunar auk umhverfis- og auðlindaráðuneytisins,“ segir á vef Stjórnarráðs Íslands

,,Kerlingarfjöll eru meðal helstu náttúruperla landsins. Þau hafa að geyma afar fjölbreytta náttúru og er svæðið vinsælt til útivistar. Friðlýsing þeirra er því mikil tímamót. Unnið hefur verið að friðlýsingunni frá árinu 2016 en það var sveitarfélagið Hrunamannahreppur sem hafði frumkvæði að samstarfi við undirbúning hennar.“

,,Kerlingarfjöll draga nafn sitt af móbergsdranga sem rís upp úr líparítskriðu sunnan í Tindi í vestanverðum fjöllunum. Fjallaklasinn samanstendur af litríkum líparíttindum og stórbrotnu landslagi. Svæðið er megineldstöð og eitt af öflugri háhitasvæðum landsins. Ekki hafa orðið eldgos í Kerlingarfjöllum á nútíma. Í Hveradölum, einu helsta aðdráttarafli Kerlingarfjalla, hvína og sjóða fjölbreyttir og litríkir gufu- og leirhverir. Í kringum marga þeirra vex sérstæður og viðkvæmur gróður.“

Friðlýsingin hefur verið unnin í víðtæku samráði við Hrunamannahrepp, Skeiða- og Gnúpverjahrepp og Kerlingarfjallavini. Það var Svandís Svavarsdóttir, settur umhverfis- og auðlindaráðherra í málinu, sem undirritaði friðlýsinguna.

Auglýsing

læk

Instagram